Innlent

Þrettán milljónir ber á milli

Framlög skólans eru miðuð við fjórum sinnum minni skóla, að sögn stjórnenda. Ráðuneytið hefur stungið upp á því að skólinn minnki.
Framlög skólans eru miðuð við fjórum sinnum minni skóla, að sögn stjórnenda. Ráðuneytið hefur stungið upp á því að skólinn minnki. Mynd/Anton
hilmar oddsson
Stjórn Kvikmyndaskóla Íslands hefur óskað eftir að árlegt framlag ríkisins verði aukið úr 38 milljónum króna í 70. Í mars fór stjórnin fram á 140 milljón króna árlegt framlag, en hefur nú lækkað þá ósk. Ráðuneytið hefur boðið 57 milljón krónur árlega. Því hafnaði skólinn í júní.

Hilmar Oddsson skólastjóri segir að starfsemi skólans geti haldið áfram, verði stjórnvöld við lágmarkskröfum um 70 milljóna króna árlegt framlag. Hann segir núverandi framlag miðað við fjórum sinnum minni skóla. Því sé ekki nema eðlilegt að það hækki í samræmi við aukin umsvif.

„Við höfum skilið að ekki sé hægt að hækka framlagið til fulls miðað við ástandið og því lagt til 70 milljón króna framlag. Það munar 13 milljónum króna á okkar tillögum og ríkisins. Mun íslenska ríkið falla með þeim milljónum til Kvikmyndaskóla Íslands? Auðvitað ekki, þetta er einfaldlega pólitísk ákvörðun.“

Elías Jón Guðjónsson, aðstoðarmaður ráðherra, segir að ráðuneytið hafi bent á að miðað við þær tekjur sem skólinn hefur gangi reksturinn ekki upp þar sem útgjöld séu þar langt umfram. Ráðuneytið hafi velt upp þeim möguleika að skólinn verði minnkaður.

Hilmar bendir á að allar ákvarðanir um stækkun skólans hafi verið teknar í samráði við stjórnvöld. „Ef það er myndin sem menn fá að við höfum verið að spila eitthvað sóló þá er það kolrangt.“ Það sé heldur engin lausn að minnka skólann um helming, með því minnkuðu tekjur hans í skólagjöldum. Skólagjöldin séu komin að sársaukamörkum fyrir nemendur og ekki hægt að hækka þau, en þau hafa ekki hækkað síðan 2003. Þá sé ósanngjarnt að minnka námsframboð skólans á miðri önn, eftir að nemendur hafi fjárfest í dýru námi með ákveðna námskrá í huga.

Í fréttatilkynningu sem stjórnin sendi frá sér í gær var það gagnrýnt að Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarráðherra, hefði ekki gengið frá samningum við skólann áður en hún fór í barneignarleyfi. Katrín segist lítt skilja þessa gagnrýni.

„Þá stóðu yfir viðræður sem var ekki lokið. Ég gat því miður ekki frestað fæðingarorlofinu,“ segir Katrín, en vísar að öðru leyti til starfandi ráðherra, Svandísar Svavarsdóttur. Ekki náðist í hana við vinnslu fréttarinnar.

Mikill niðurskurður hefur átt sér stað í menntamálum á síðustu árum. Á síðasta ári var framlag til háskólastigs skorið niður um 10 prósent og um 15 prósent til framhaldsskólastigs. Hilmar bendir hins vegar á að skólinn hafi verið undirfjármagnaður í mörg ár.

Stjórnendur Kvikmyndaskólans og fulltrúar menntamálaráðuneytisins munu funda um málefni skólans í dag.

kolbeinn@frettabladid.is

katrín jakobsdóttir






Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×