Innlent

Tók í hönd framkvæmdastjórans, kippti honum að sér og stakk

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Guðgeir Guðmundsson hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald fram á föstudag og þá er honum einnig gert að sæta geðrannsókn.
Guðgeir Guðmundsson hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald fram á föstudag og þá er honum einnig gert að sæta geðrannsókn. mynd/stöð 2
Framkvæmdastjóri Lagastoða hafði lækkað skuld árásarmannsins um þrjátíu þúsund krónur og þeir komist að samkomulagi áður en sá síðarnefndi réðist á hann og veitti honum lífshættulega áverka. Hinn særði er enn í lífshættu.

Samkvæmt heimildum fréttastofu tók framkvæmdastjóri Lagastoða á móti árásarmanninum Guðgeiri Guðmundssyni eftir að sá síðarnefndi mætti á skrifstofu lögmannsstofunnar vegna skuldamála en skuld Guðgeirs hljóðaði upp á rúmar áttatíu þúsund krónur.

Þeir fóru saman inn á skrifstofu framkvæmdastjórans og unnu þar að því að komast að ásættanlegri niðurstöðu mála. Inni á skrifstofunni eyddu þeir dágóðum tíma og felldi framkvæmdastjórinn meðal annars niður kostnað af skuld Guðgeirs um þrjátíu þúsund krónur svo hún endaði í rúmum fimmtíu þúsund krónum. Framkvæmdastjórinn prentaði út skjal sem sýnir að mennirnir höfðu komist að samkomulagi og var athugasemd þess efnis bókuð inn í innheimtukerfi Lögmannsstofunnar.

Svo virðist sem Guðgeir hafi því ekki ráðist á framkvæmdastjórann um leið og hann kom inn á skrifstofu hans, líkt og komið hefur fram í fjölmiðlum, heldur þegar hann var að kveðja manninn, en samkvæmt heimildum fréttastofu tók hann í hönd framkvæmdastjórans kippti honum að sér og stakk hann.

Framkvæmdastjórinn liggur enn mjög þungt haldinn á gjörgæsludeild Landspítalans. Honum er enn haldið sofandi í öndunarvél eftir að hafa gengist undir umfangsmikla aðgerð í fyrradag. Hann er í lífshættu.

Málið hefur vakið mikla athygli breskra fjölmiðla og má finna víða fréttir þess efnis að Guðni Bergsson, fyrrum landsliðfyrirliði Íslands í knattspyrnu og leikmaður Bolton og Tottenham hafi verið stunginn í árásinni. Guðni hlaut líkt og áður hefur komið fram tvö stungusár á læri þegar hann kom samstarfsfélaga sínum til hjálpar og yfirbugaði árásarmanninn. Í

einkaviðtali við The Bolton News lýsir Guðni atburðinum þannig að hann hafi séð árásina eiga sér stað og hafi flýtt sér til að ná hnífnum af árásarmanninum. Það hafi tekist og hafi Guðni haldið honum þar til lögregla kom á staðinn. Guðni segist í viðtalinu vera í áfalli eftir árásina en að hann hugsi þó mest um og voni að samstarfsfélagi hans lifi árásina af.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×