Innlent

Um þrjú hundruð barrtré felld á Þingvöllum á næstu árum

Hátt í þrjú hundruð barrtré á Þingvöllum verða felld á næstu árum því þau teljast ekki upprunaleg samkvæmt Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Heimsminjaskrá setur það ekki að skilyrði að tréin verði felld en það verður engu að síður framkvæmt svo Þingvellir verði í sinni upprunalegu mynd frá þjóðveldistímanum.

Þingvellir voru samþykktir á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna árið 2004 og eru meðal tæplega 800 menningar- og náttúruminjastaða á heimsminjaskránni sem taldir eru hafa einstakt gildi fyrir alla heimsbyggðina. Heimsminjaskrá hefur bent á að barrtréin sem eru í þinghelginni, hinum forna þingstað eru ekki upprunaleg þar sem þau voru gróðursett á seinustu öld. Þetta er svæðið frá efri brún Almannagjár í vestri, austur að Flosagjá og inn undir Öxarárfoss.

Guðrún Kristinsdóttir yfirlandvörður á Þingvöllum segir Heimsminjaskrá eingöngu miða við þjóðveldisöld, tímabilið frá 930-1262. Auk þess sé talið að fornminjar séu á svæðinu þar sem barrtréin eru staðsett og það þurfi að kanna nánar.

Langmest er af birkitrjám og reyniviði á Þingvöllum. Barrtréin eru flest rúmlega hálfrar aldar gömul en Skógrækt ríkisins hefur haft umsjón með því að fella þau og nú þegar hafa um fimmtíu tré verið felld. Guðrún segir Heimsminjaskrá ekki hafa sett það að skilyrði að tréin yrðu felld en þingvallanefnd hefur ákveðið að framkvæma það í samráði við Skógrækt ríkisins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×