Innlent

Við erum feit, á þunglyndislyfjum, með klamydíu og skemmdar tennur

Sólveig Bergmann skrifar

Íslenska þjóðin er sú hamingjusamasta í heimi. Feit, á þunglyndislyfjum, með klamydíu og skemmdar tennur. Þetta sýna niðurstöður nýlegra kannana.

Íslenskir karlar eru þeir sterkustu í heimi, konurnar þær fegurstu og spilling eitthvað sem enginn kannast við. Þessi mynd virðist eitthvað hafa breyst síðustu ár.

Til dæmis bárust okkur þær fregnir í vikunni, í nýrri skýrslu OECD, að sextíu prósent Íslendinga eru yfir kjörþyngd. Tuttugu prósent eru offitusjúklingar. Það þýðir að Íslendingar eru í sjöunda sæti af 33 feitustu þjóðum heims. Frændur okkar á Norðurlöndum eru langt undir meðatali.

Ef við höldum okkur í norræna samanburðinum þá eru íslensk börn og ungmenni að meðaltali með tvöfalt fleiri skemmdar tennur en samanburðarhópar í Svíþjóð og staðan er verri hér en á hinum Norðurlöndunum. Meðal Jóninn eða Gunnan innbyrðir um kíló af sykri í hverri einustu viku.

Finnar, Danir, Svíar og Norðmenn eru eftirbátar okkar á fleiri sviðum. Tíðni klamydíu er til dæmis hærri meðal Íslendinga en þekkist meðal frændþjóðanna.

Svo eru það heimsmetin.

Matvælaverð á Íslandi er það hæsta í heimi og fjöldi sortuæxla meðal íslenskra kvenna slær allt annað út sem sést hefur á heimsvísu.

Íslendingar slá líka öll met í notkun á þunglyndislyfjum og má velta því fyrir sér hvort tenging sé á milli þeirrar notkunar og því að Íslendingar eru jákvæðasta þjóð í heimi samkvæmt mælingum OECD.

Þá má geta þess að ævilíkur á Íslandi eru um það bil tveimur árum meiri en í öðrum OECD ríkjum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×