Lífið

Öll með að­stöðu til að fagna sigri með stuðnings­mönnum

Kjartan Kjartansson skrifar
Jón Gnarr og Katrín Jakobsdóttir eru bæði með svalir sem þau telja duga til að veifa af til sigurreifra stuðningsmanna.
Jón Gnarr og Katrín Jakobsdóttir eru bæði með svalir sem þau telja duga til að veifa af til sigurreifra stuðningsmanna. Vísir/Vilhelm

Allir frambjóðendurnir sex sem tóku þátt í kappræðum Stöðvar 2 sögðust tilbúnir að taka á móti stuðningsmönnum við heimili sín ef þeir ná kjöri sem forseti. Arnar Þór Jónsson sagðist geta séð yfir þúsundir manna á túninu heima hjá sér.

Hefð hefur skapast fyrir því að sigurvegarar í forsetakosningum fagni með stuðningsmönnum sínum á svölum heima hjá sér. Heimir Már Pétursson, stjórnandi kappræðnanna í gærkvöldi, lauk því þættinum með því að kanna hvort að frambjóðendurnir væru með svalir heima hjá sér, meira í gamni en alvöru.

Jón Gnarr sagði að það mætti kalla það svalir heima hjá sér þar sem hann og kona hans gætu rúmast.

„Við gætum skotist þar og veifað. Við myndum glöð gera það,“ sagði Jón.

Tvennar svalir eru heima hjá Höllu Tómasdóttur, Baldur Þórhallsson er með fánastöng og svalir með útsýni beint yfir Bessastaði og Halla Hrund Logadóttir er með rúmgóðar svalir á annarri hæð í blokk fyrir sína litlu fjölskyldu.

„Ég er á þriðju hæð í blokk og við erum með litlar svalir en þær duga bara vel til að veifa,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.

Arnar Þór sagðist búa í húsi á einni hæð en á því væru flatt þak og stórt tún.

„Ég gæti horft yfir þúsundir manna á túninu,“ sagði frambjóðandinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×