Innlent

Viðvörunarljós blikka í fjármálaheiminum

Öll viðvörunarljós eru farin að blikka í efnahagslífinu á Íslandi að mati sérfræðings hjá Fitch Rating. Mikil lántaka bankanna hér á landi var umfjöllunarefni norsks viðskiptablaðs um helgina en blaðið velti því upp hvort að ekki stefni í kreppu í íslenskum fjármálaheimi.

Greinin birtist í blaðinu Dagens Næringsliv í Noregi og var fyrirsögn greinarinnar "Rauð ljós á Íslandi". Þar er farið ítarlega yfir þenslu stóru bankanna hér á landi það er KB banka, Landsbanka og Íslandsbanka, sem nú ber heitið Glitnir. Greinarhöfundar komu hingað til lands þegar þeir unnu að úttekt sinni og tóku meðal annars viðtöl við nokkra framámenn í bankaheiminum. Útektin er ítarleg og reyna þeir að sýna fram á hversu umsvifamiklir bankarnir séu í raun og veru og þau tengsl sem eru milli þeirra sjálfra. Greinarhöfundar segja Íslendinga með gríðarlegri lántöku hafa eignast mörg af eftirsóknarverðustu fyrirtækjunum í Evrópu. Nú séu fjárfestar hins vegar farnir að ókyrrast og kapplaup við tímann sé hafið.

Í greinni er haft eftir Paul Rawkins, sérfræðings hjá Fitch Rating, að öll viðvörunarljós séu farin að blikka í íslensku efnahagslífi. Þrátt fyrir mikinn hagvöxt, sem drifin sé áfram af álversframkvæmdum, þá sé ójafnvægið í efnahagslífinu miklu meira en búist hafi verið við. Viðskiptahallinn sé gríðarlegur og ójafnvægið mikið. Þrátt fyrir að lánshæfi bankanna sé ágætt þá séu alþjóðlegir fjárfestar alltaf að verða meira tortryggnari í garð bankanna og tregari til að lána þeim peninga.

Síðustu mánuði hafi þetta haft þau áhrif að dregið hafi úr möguleikum bankanna til að fá lán og kjöri þeirra versnað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×