Innlent

Rannsókn á tveimur stórum fíkniefnamálum að ljúka

Efnin sem haldlögð voru í húsbíl Hollendingsins í sumar.
Efnin sem haldlögð voru í húsbíl Hollendingsins í sumar. MYND/Frikki Þór

Rannsókn á tveimur stórum fíkniefnamálum sem upp hafa komið á þessu ári er á lokastigi en bæði tengjast þau smygli með bílum í Norrænu. Að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, er þó ekki hægt að tilgreina nákvæmlega hvenær rannsókn lýkur en í framhaldinu verða málin send saksóknara.

Fyrra málið kom upp í byrjun júní en þá var hollenskur karlmaður á sjötugsaldri gripinn með um 190 kíló af hassi í húsbíl sínum ásamt marijúana og kókaíni. Hann situr nú í gæsluvarðhaldi ásamt tónleikahaldaranum Þorsteini Kragh.

Seinna málið kom upp í byrjun september en þá var Þjóðverji um sjötugt gripinn með 20 kíló af hassi og 1,7 kíló af amfetamíni við komuna til landsins með Norrænu. Sá situr í gæsluvarðhaldi en Þjóðverji, sem búsettur er hér á landi og er grunaður samstarfsmaður, er í farbanni vegna málsins.

Þá rannsakar lögregla enn fíkniefnamál sem kom upp fyrir tveimur vikum þegar fíkniefnaverksmiðja í Hafnarfirði var upprætt. Ekki liggur enn fyrir hversu mikið magn efna var í verksmiðjunni. Gæsluvarðhald yfir þremur mönnum vegna málsins rennur út á morgun og reiknaði Friðrik Smári með að farið yrði fram á áframhaldandi varðhald yfir þeim. Það réðist þó endanlega á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×