Innlent

Ríkið veiti milljarði til Helguvíkurhafnar

Helguvík Frá náttúrunnar hendi eru hafnarskilyrði góð en mikla uppbyggingu þarf til að taka á móti skipum fyrir stórt álver. Myndin er tölvuunnin fyrir framkvæmdaaðila
Helguvík Frá náttúrunnar hendi eru hafnarskilyrði góð en mikla uppbyggingu þarf til að taka á móti skipum fyrir stórt álver. Myndin er tölvuunnin fyrir framkvæmdaaðila

Forsvarsmenn Reykjanesbæjar kalla eftir svörum um hvort ríkið ætlar að taka þátt í kostnaði við uppbyggingu Helguvíkurhafnar. Sveitarfélagið ætlar að fullgera höfnina óháð aðkomu ríkisins en milljarðalántöku þarf hins vegar til. Slík lántaka gæti reynst þrautin þyngri. Helguvíkurhöfn er ekki á samgönguáætlun og ekkert fjármagn því eyrnamerkt hafnargerðinni.

„Við höfum fengið þau svör frá forsvarsmönnum nokkurra ríkisstjórna, og þá sérstaklega þeirrar sem nú situr, að það væri ekkert mál að koma með okkur í þetta verkefni og taka þátt í fjármögnun við uppbyggingu hafnarinnar,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.

„Það liggur hins vegar ekki ljóst fyrir hvort og hvernig þessu verður sinnt.“

Fram kemur í fundargerð Atvinnu- og hafnaráðs Reykjanesbæjar frá því í september að ráðið hafi „ítrekað sent erindi til Siglingastofnunar og Samgönguráðuneytisins undanfarin þrjú ár vegna framkvæmda í Helguvíkurhöfn án þess að ráðuneytið hafi komið því í samgönguáætlun“.

Því hefur verið svarað til frá ráðuneytinu að fjármagn liggi því ekki fyrir og setja þurfi sérlög ef ríkið eigi að koma að framkvæmdinni. „Þar sem verkefnið er hluti af stöðugleikasáttmála ríkis og atvinnulífs er brýnt að verkefnið fái nú framgang“ segir jafnframt í fundargerðinni.

Hafnargerðin, sem er nauðsynleg vegna álvers Norðuráls á staðnum, er risavaxið verkefni fyrir sveitarfélagið. Áætlaður kostnaður er tveir milljarðar króna. Hlutur ríkisins yrði 800 milljónir til milljarður króna, segir Árni. „Það er því löngu tímabært að við fáum úr þessu skorið.“

Árni segir að lán hafi ekki verið tekin til hafnargerðarinnar og ljóst að bæði yrði erfitt að finna það fjármagn og að slík lántaka yrði þungur baggi. Reykjanesbær sé það sveitarfélag sem hefur lægstu skatttekjur á landinu og standi ekki endalaust undir þeirri fjárfestingu sem þarf til að byggja upp í Helguvík.

„Við hljótum að treysta á að ríkið komi með þetta framlag, eins og það hefur gert annars staðar. En það er auðvelt að fella okkur ef þetta fjármagn kemur ekki því annars þurfum við að standa undir allri þessari fjárfestingu, það gæti reynst okkur mjög erfitt.“

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×