Lífið

Flateyjargáta í sjónvarpið

Skrifað undir samstarfið. Björn Brynjúlfur og Viktor Arnar handsala samninginn um að gera sjónvarpsseríu eftir bók rithöfundarins, Flateyjargátu.Mynd/JPV
Skrifað undir samstarfið. Björn Brynjúlfur og Viktor Arnar handsala samninginn um að gera sjónvarpsseríu eftir bók rithöfundarins, Flateyjargátu.Mynd/JPV

„Hún er allavega farin í þróun, við sjáum svo til hvernig gengur að fjármagna hana,“ segir Björn Brynjúlfur Björnsson kvikmyndagerðarmaður. Hann samdi nýlega við glæpasagnarithöfundinn Viktor Arnar Ingólfsson um að gera sjónvarpsseríu byggða á bók Viktors, Flateyjargátu. Þeir tveir hafa áður ruglað saman reytum því Björn Brynjúlfur leikstýrði einnig þáttaröðinni Mannaveiðum sem byggð var á bók Viktors og sýnd á RÚV.

Björn viðurkennir að þetta samkomulag komi kannski ekki á besta tíma en eins og lesa má framar í Fréttablaðinu verða framlög til sjónvarps- og kvikmyndagerðar skorin niður um rúman þriðjung samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs. Björn segist hins vegar vera vongóður og ætlar ekki að leggja árar í bát. „Þetta er flott saga sem hefur verið gefin út víða í Evrópu og ég vænti mjög góðs af þessu samstarfi.“

Björn segir það hafa heillað sig að Flateyjargátan sé óvenjuleg bók, hún gerist að mestu leyti úti í Flatey og tengist íslensku handritunum. „Það er svona smá Da Vinci-tenging og svo eru líka óvenjulegar og skemmtilegar persónur og óvenjulegt sögusvið. Það er alltaf gaman að gera eitthvað sem er svona mikið öðruvísi og sýnir ekki bara lögreglumenn hlaupandi um götur Reykjavíkur.“- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.