Innlent

Íbúðalánasjóður á fjórfalt fleiri íbúðir en í byrjun síðasta árs

Íbúðalánasjóður á nú nærri fjórfalt fleiri íbúðir sem hann hefur eignast á nauðungarsölu, en í byrjun síðasta árs.

Í byrjun árs 2008 átti Íbúðalánasjóður um fimmtíu fasteignir, sem sjóðurinn hafði eignast á nauðungarsölu. Um síðustu áramót var sú tala komin upp í 200 og hefur íbúðunum fjölgað enn meira frá þeim tíma, en að sögn Guðmundar Bjarnasonar, framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs, eru nú um 230 íbúðir í eigu sjóðsins. Hér er því um nær fjórföldun að ræða á milli ára.

Á vef Íbúðalánasjóðs má sjá þær fasteignir sem eru til sölu hjá sölumönnum sjóðsins, en þær eru 65 talsins, og eins og sjá má hér eru þær staðsettar um allt land. Mismuninn á fjöldanum sem sjóðurinn á annars vegar og hins vegar fjölda íbúða til sölu má skýra með því að sumar íbúðir eru í útleigu auk þess sem í einhverjum tilfellum búa fyrri eigendur í íbúðunum ennþá.

Að sögn Guðmundar mátti merkja mikla aukningu á nauðungarsölum í haust í kjölfar bankahrunsins en íbúðum sem sjóðurinn eignaðist á nauðungarsölu fjölgaði þó jafnt og þétt á síðasta ári.

Í lok mars tók gildi breyting á lögum um nauðungarsölu en nú er hægt að óska eftir því við sýslumann að nauðungarsölu á húsnæði verði frestað fram yfir 31. október 2009. Íbúðum í eigu Íbúðalánasjóðs mun því líklegast ekki fjölga mikið meira á næstu mánuðum, en þó má búast við að þeim fjölgi aftur eftir 31. október.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×