Lífið

Jónsi gerir poppaða sólóplötu

Fyrsta sólóplata Jónsa ætti að líta dagsins ljós fljótlega á næsta ári.
Fyrsta sólóplata Jónsa ætti að líta dagsins ljós fljótlega á næsta ári.

„Maður er bara að taka smá Phil Collins á þetta," segir Jón Þór Birgisson, Jónsi Í Sigur Rós, sem nú stendur í ströngu við að hljóðblanda fyrstu sólóplötuna sína úti í London. Hann mun helga sig verkefninu næsta ár og meðal annars leggjast í tónleikaferðalög um allan heim til að kynna plötuna.

„Þetta er svaka popp," segir Jónsi aðspurður um nýja efnið. Hann segir að stefnan sé sett á að drífa plötuna bara út sem fyrst á nýja árinu, í febrúar eða mars.

Ýmsir leggja í púkkið á plötunni, Alex Somers, kærasti Jónsa, kemur við sögu, en þeir gerðu plötuna Riceboy Sleeps saman fyrr á árinu. Nico Muhly sér um strengjaútsetningar og finnski trommarinn Samuli Kosminen, sem hefur unnið með múm, kemur við sögu. Pródúser plötunnar heitir Peter Katis og hefur unnið með rokkböndum á borð við Interpol, Toyko Police Club og The National. Þeir sem heyrt hafa lög af plötunni segja þau allnokkuð öðruvísi en það sem Jónsi hefur gert til þessa, kassagítarar séu fyrirferðarmeiri en vanalega, en strengir og blásturshljóðfæri leiki líka stóra rullu.

Spurningin sem allir hljóta að vera að spyrja sig er hvort hljómsveitin Sigur Rós sé hætt. Aðdáendur þessarar frægustu hljómsveitar Íslandssögunnar geta andað léttar því Jónsi svarar: „Nei nei, alls ekki. Menn eru bara í barneignafríum hægri vinstri og mig vantaði eitthvað að gera."

- drg










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.