Innlent

Mótmælendur reknir frá sendiráði Bandaríkjanna - þeir neita að fara

Valur Grettisson skrifar
Lárus Páll Birgisson á góðum degi. Þarna fékk hann að mótmæla í friði.
Lárus Páll Birgisson á góðum degi. Þarna fékk hann að mótmæla í friði.

„Lögreglan er hérna og vill að við förum," segir Lárus Páll Birgisson, sem ásamt um tíu mótmælendum, hafa tekið sér stöðu fyrir framan sendiráð Bandaríkjanna til þess að mótmæla hernaði og stríðsrekstri auk þess sem Lárus vill benda á aðrar og friðsamari lausnir í heimsstjórnmálum.

Það ætlar þó ekki að ganga átakalaust fyrir sig því lögreglan hefur beðið mótmælendur að færa sig af gangstéttinni fyrir framan sendiráðið og yfir götuna.

Sjálfur segist Lárus ekki skilja hvað lögreglunni gangi til þar sem gangstéttin sé í eigu borgarinnar og því sé borgurum frjálst að standa þar.

„Ég er búinn að þráspyrja um lagalegar heimildir sem meina okkur að standa hérna og ekki fengið nein svör," segir Lárus sem hefur reyndar verið handtekinn þrisvar sinnum fyrir að færa sig ekki frá sendiráðinu. Þá var hann dæmdur í eitt skiptið fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglunnar.

Lárus segir samskipti mómælanda og lögreglu kurteis. Hann segir reyndar að mótmælin í dag vera kurteisisheimsókn.

„Þetta eru vinsamleg tilmæli um að það séu til fleiri aðferðir til þess að ná pólitískum markmiðum sínum en með ofbeldi og stríðsrekstri," segir Lárus að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×