Innlent

Jón Sigurðsson merktur á nýju ári

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Styttan af Jóni stendur við Austurvöll. Mynd/ GVA.
Styttan af Jóni stendur við Austurvöll. Mynd/ GVA.
Afmælisár Jóns Sigurðssonar forseta rennur upp á nýársdag, en hann fæddist á Hrafnseyri við Arnarfjörð 17. júní 1811. Afmælisins verður minnst með margvíslegum hætti allt árið en merking styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli markar upphaf afmælishaldsins.

Einar Jónsson myndhöggvari gerði styttuna og lágmyndina „Brautryðjandinn" í tilefni af 100 ára afmæli Jóns Sigurðssonar 1911 og hún var reist fyrir framan Stjórnarráðshúsið 10. september það ár. Styttan var flutt á Austurvöll 1931. Strax árið 1911 var rætt um að merkja styttuna og oft hefur verið minnst á það síðan en aldrei orðið af því fyrr en nú.

Það eru forsætisráðuneytið og Listasafn Einars Jónssonar sem standa að merkingunni að tillögu afmælisnefndar Jóns Sigurðssonar. Merkingin er koparplata á bakhlið fótstalls styttunnar með eftirfarandi texta:

JÓN SIGURÐSSON FORSETI 17.6.1811 - 7.12.1879

Leiðtogi sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. öld.

Styttuna og lágmyndina „Brautryðjandinn" gerði Einar Jónsson myndhöggvari

í tilefni af 100 ára afmæli Jóns Sigurðssonar 1911.

Íslendingar austanhafs og vestan gáfu styttuna.

Hún var reist við Stjórnarráðshúsið 1911 en flutt á Austurvöll 1931.

JÓN SIGURÐSSON

Leader of Iceland´s independence movement.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×