Innlent

Meirihlutinn fallinn og fylgið hrynur af Besta

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Meirihlutinn í borginni er fallinn og Sjálfstæðisflokkurinn yrði á ný stærsti flokkurinn í borginni ef gengið yrði til kosninga nú samkvæmt nýrri könnun. Fylgi Besta flokksins dalar en hann fengi fjóra menn kjörna.

Könnunin var gerð af Capacent Gallup fyrir Sjálfstæðisflokkinn dagana 1.-22. desember síðastliðinn. Spurt var: Ef kosið yrði til borgarstjórnar í dag hvaða flokk eða lista mundir þú kjósa?

Þrjátíu og sex komma níu prósent aðspurðra sögðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Samkvæmt þessu yrði Sjálfstæðisflokkurinn á ný stærsti flokkurinn í borgarstjórn, bætir fylgi sitt um 10 prósent frá síðustu kosningum, og fengi 6 menn kjörna. Besti flokkurinn fengi 27,3 prósent, missir um fimmtung fylgis síns og fengi fjóra menn kjörna. Samfylkingin fengi 19 prósent og þrjá menn kjörna, en samkvæmt þessu er meirihlutinn í borginni fallinn. Vinstri græn 11,2 prósent og Framsóknarflokkurinn 2,5 prósent. Þá sögðust 3,1 prósent vilja kjósa einhvern annan flokk.

„Fjarar hratt undan meirihlutanum"

Hanna Birna Kristjánsdóttir, forseti borgarstjórnar er oddviti sjálfstæðismanna. Hvernig túlkarðu þessar niðurstöður? „Ég held að þessar niðurstöður sýni okkur að það fjarar talsvert hratt undan þessum meirihluta og ég held að það sé vegna þess að fólk átti von á annars konar vinnubrögðum en er ekki að sjá þau og líka vegna þess að áherslurnar í formi skattahækkana og gjaldskrárhækkana eru eitthvað sem borgarbúar eiga ekki skilið og eitthvað sem átti ekki að þurfa að fara í. Þetta er auðvitað ánægjulegar niðurstöður fyrir okkur sjálfstæðismenn. Okkar áherslur virðast vekja ánægju meðal borgarbúa og það er gott," segir Hanna Birna.

Í úrtakinu voru 1208 Reykvíkingar, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr viðhorfshópi Capacent Gallup, svarhlutfall var 64%. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×