Innlent

Eldosið sem hafði áhrif um allan heim

Þegar eldgos verður undir jökli, sjó eða vatni verða meiri eldingar en ella, segir á vef Almannavarna. Eldingarnar verða vegna rafhleðslu í gosmekkinum. Hleðslan verður til í gígnum við samspil vatns og kviku. Fréttablaðið/Vilhelm
Þegar eldgos verður undir jökli, sjó eða vatni verða meiri eldingar en ella, segir á vef Almannavarna. Eldingarnar verða vegna rafhleðslu í gosmekkinum. Hleðslan verður til í gígnum við samspil vatns og kviku. Fréttablaðið/Vilhelm
Eldgos hófst í sprungu á norðanverðum Fimmvörðuhálsi, skammt vestan gönguleiðarinnar, 20. mars síðastliðinn. Gosið stóð í tæpan mánuð og hafði ekki teljandi áhrif, þótt ný sprunga opnaðist í lok mánaðarins og hraun rynni í Hvannárgil. Töluðu sumir um „túristagos“ en 12. apríl voru ekki frekari merki um elds­umbrot á þessum fyrstu gosstöðvum.

Laust eftir miðnætti 14. apríl hófst hins vegar öflugra gos undir jökulhettunni í aðalgíg Eyjafjalla með tilheyrandi flóðum. Rjúfa þurfti þjóðveginn við nýju Markarfljóts­brúna og mikill viðbúnaður var af hálfu Almannavarna við að forða bæði fólki og búfénaði af hættusvæðum.

Þá varð öskustrókurinn úr gosinu til þess að flugumferð í Evrópu lamaðist að stórum hluta í sex daga. Strókurinn stóð enda um níu kílómetra upp í loftið þegar mest lét. Sprengivirkni var mest fyrstu viku gossins, sem þó stóð fram í júní.

Gosið hafði mikil áhrif hér heima vegna öskufalls nærri gosstöðvunum og vatnavaxta og gætir þeirra áhrifa enn. Erlendis röskuðust hins vegar ferðaáætlanir um fimm milljóna manna.

Kostnaður hér heima vegna gossins hefur verið metinn rúmlega 800 milljónir króna. Erlendis er kostnaður vegna áhrifa á samgöngur talinn í tugum milljarða. Á alþjóðlegri ráðstefnu Keilis um gosið kom fram að flugfélög eru talin hafa tapað 23 milljörðum króna á degi hverjum sem flugumferð lá niðri í Evrópu. Er þá ótalinn allur annar kostnaður.

Þá er gosið í Eyjafjallajökli einn af fimm stærstu atburðum ársins á heimsvísu samkvæmt tölum leitarvélarinnar Google, en sú niðurstaða byggir á því hversu oft leitar­orð koma fyrir. Auk gossins voru talin til jarðskjálftinn á Haítí, Vetrarólympíuleikarnir í Vancouver, olíuslysið í Mexíkóflóa og Heimsmeistaramótið í knattspyrnu.

Eyjafjallajökull er fimmti stærsti jökull Íslands og hefur gosið þar fjórum sinnum síðan land byggðist, fyrst árið 920, þá 1612, 1821 og loks núna á þessu ári. - óká
Á fimmvörðuhálsi Fjöldi fólks vildi berja augum eldgosið á Fimmvörðuhálsi og svo það sem hófst í Eyjafjallajökli. Töluverð umsvif urðu því í að ferja ferðafólk í þyrlum upp að gosstöðvunum. Fréttablaðið/anton
gosmökkur Hér má sjá gosstrókinn liggja í suður frá gígnum í Eyjafjallajökli. Gosstrókurinn náði oft mikilli hæð og barst aska yfir til meginlands Evrópu og truflaði flugumferð. Fréttablaðið/GVA


Öskuþvottur Hér má sjá Ragnar Þorra Vignisson á bænum Hemlu, skammt austan Hvolsvallar, þvo ösku af heimilisbílnum með gosmökkinn í baksýn. Fréttablaðið/Pjetur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×