Erlent

Nýfundin tegund var áður útbreidd í Asíu

Bein Denisovans-fornmannsins hafa fundist í Denisova hellinum í Síberíu.Mynd/Max Planck I.E.A.
Bein Denisovans-fornmannsins hafa fundist í Denisova hellinum í Síberíu.Mynd/Max Planck I.E.A.

Fornmenn sem uppi voru í Síberíu fyrir meira en 30 þúsund árum blönduðust nútímamönnum. Þetta sýnir greining á erfðaefni fornmannanna og frumbyggja eyja norðaustur af Ástralíu, sem sagt er frá í nýjasta hefti vísindaritsins Nature.

Síberísku fornmennirnir, sem kallaðir eru Denisovans, áttu sameiginlegan forföður með nútímamönnum, rétt eins og Neandertalsmenn.

Aðeins eru níu mánuðir frá því að vísindamenn fundu fyrst leifar Denisovans. Þau bein sem hafa fundist til þessa hafa ekki verið stór, aðeins eitt fingurbein og ein tönn hafa verið grafin upp.

Denisovans og Neandertalsmenn eiga það sameiginlegt að hafa verið uppi á sama tíma og nútímamenn, og að hafa blandast afmörkuðum hópum nútímamanna áður en tegundirnar urðu útdauðar.

Það kom vísindamönnunum sérstaklega á óvart að síberísku fornmennirnir hafa blandast forfeðrum frumbyggja í Melanasíu, eyjum eins og Nýju-Gíneu og Fídji. Bein Denisovans-fornmannanna hafa hingað til aðeins fundist í Denisova-hellinum í Suður-Síberíu. Skyldleikinn þykir benda til þess að þessi tegund fornmanna hafi verið útbreidd í Asíu fyrir um 45 þúsund árum, þegar forfeður íbúa Melanesíu komu fyrst til Nýju-Gíneu.

Erfðaefni þessara síberísku fornmanna sýnir að þeir áttu sameiginlegan forföður með Neandertalsmönnum. Sá átti aftur sameiginlegan forföður með nútímamanninum. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×