Innlent

Árið 2010 eitt það hlýjasta frá því mælingar hófust

Sumarið var hið hlýjasta sem vitað er um hér á landi
Sumarið var hið hlýjasta sem vitað er um hér á landi Mynd: GVA

Árið sem er að líða er eitt það hlýjasta frá því mælingar hófust hér á landi. Átta sinnum mældist mánaðarhiti yfir meðaltali og sumarið var óvenju gott.

Mjög hlýtt hefur verið á landinu í ár samkvæmt samantekt veðurstofunnar. Sérstakleg á Suður-og Vesturlandi.

Frá janúarmánuði til loka nóvember mældist hiti átta sinnum yfir meðaltali en nóvember, apríl og febrúar voru hins vegar kaldari.

Sumarið var hið hlýjasta sem vitað er um síðan mælingar hófust. Hæsti hiti sumarsins mældist þó ekki fyrr en í september - 24,9 stig á Möðruvöllum í Hörgárdal.

Sólskinsstundir voru sjötíu og átta fleiri í Reykjavík í sumar en í meðalári og fjörtíu og tveimur fleiri á Akureyri.

Á Suðvesturlandi hefur verið úrkoma verið með minnsta móti. Í Reykjavík var úrkoma aðeins um helmingur af meðalúrkomu á fyrstu ellefu mánuðum ársins en á Akureyri var úrkoman þrjátíu prósent umfram meðallag.

Mælingar fyrir desembermánuð liggja ekki fyrir en ólíklegt þykir að árið 2010 verði það hlýjasta í sögunni. Veðurfræðingar tala um annað til fimmta sætið sem verður þó að teljast býsna gott.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×