Innlent

Fóru í 440 sjúkraflug á árinu

Fjöldi sjúkrafluga ársins 2010 er nú kominn í 440 og hafa 468 sjúklingar verið fluttir með flugvélum Mýflugs. Á síðasta ári voru flugin 396 talsins að því er fram kemur á heimasíðu Mýflugs.

„Fyrstu mánuði ársins var tíðni fluga svipuð eða hærri frá fyrra ári, og var mesti fjöldinn í maí þegar farið var í 49 útköll. Í sama mánuði tók félagið við sjúkraflugsþjónustu í Vestmannaeyjum sem nú er sinnt frá Akureyri. Hafði þessi breyting í för með sér lítilsháttar fjölgun fluga sem vel hefur gengið að sinna (ef frá eru talin áhrif eldgossins i Eyjafjallajökli)," segir meðal annars.

Í þau fáu skipti sem reynst hefur ófært fyrir flugvél til Vestmannaeyja hefur Landhelgisgæslan sent þyrlu til aðstoðar.

Þá segir að eldgosið í Eyjafjallajökli hafi haft talsverð áhrif á allt flug innanlands en að vel hafi gengið að sinna sjúkrafluginu þrátt fyrir það. „Framan af voru flugvellirnir við Höfn í Hornafirði og í Vestmannaeyjum oftast lokaðir vegna öskufalls en þegar lokaðist í Reykjavík voru sjúklingar fluttir til aðhlynningar á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, sem yfirleitt var utan flugbannsvæðisins. Einnig var varaflugvél sett í gagnið sem er minna takmörkuð gagnvart flugi í öskuskilyrðum heldur en hefðbundnar skrúfuþotur."

„Öskufallið hafði einnig í för með sér að í apríl var óskað eftir sjúkraflugi til Aasiaat og Upernavik á Vesturströnd Grænlands þegar flugvöllurinn í höfuðstaðnum Nuuk lokaðist. Eru það með lengstu sjúkraflugum sem farin hafa verið frá Akureyri. Fjöldi sjúkrafluga til Grænlands á árinu voru 15 talsins, og var síðast flogið þangað á aðfangadag. Þess má geta að sjúklingurinn sem þá var fluttur er á góðum batavegi," segir einnig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×