Innlent

Óskuðu vinum gleðilegra jóla á auglýsingaskilti

Boði Logason skrifar
Krakkarnir keyptu eina viku og fengu skemmtileg viðbrögð. Sumum fannst uppátækið þó heldur óvenjulegt.
Krakkarnir keyptu eina viku og fengu skemmtileg viðbrögð. Sumum fannst uppátækið þó heldur óvenjulegt.
„Við vorum að vona að einhverjir hefðu gaman af þessu, og það tókst heldur betur,“ segir Stefán Þór Helgason, háskólanemi og einn þeirra sem birtu jólakveðju á auglýsingaskilti í Reykjavík nú rétt fyrir jólin. Hann segir hugmyndina hafa kviknað fyrir jólin í fyrra en þá hafi einfaldlega ekki gefist tími fyrir kveðjuna.

„Við sáum að það voru aðallega stórfyrirtæki sem voru að standa í þessu svo við athuguðum hvort við gætum gert þetta bara sjálf. Eftir að hafa athugað að þetta kostaði ekkert sérstaklega mikið, ákváðum við þetta væri jólagjöf frá okkur til okkar," segir Stefán Þór um uppátækið en að kveðjunni stendur vinahópur Stefáns Þórs.

Og það var ekki tilviljunin ein sem réð því að kveðjunni var skellt upp í Bankastrætinu. „Það var pælingin að hafa þetta á Þorláksmessu og það enda allir neðst í Bankastrætinu eftir gönguna á Laugaveginum, svo allir vinir og vandamenn gátu auðveldlega séð kveðjuna."

Hann segir að viðbrögðin hafi ekki látið á sér standa. „Þeir sem ég hef hitt yfir jólin hafa haft gaman af þessu, en mörgum fannst þetta óvenjulegt," segir Stefán kátur. „Þetta er ekkert ósvipað því og að senda jólakveðju í útvarpið nema þetta er myndrænna og skemmtilegra."

Jólakveðjan stóð þó aðeins uppi í eina viku. „Við ætluðum að hafa kveðjuna í tvær vikur en týmdum því ekki. En hver veit hvað gerist á næsta ári?"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×