Innlent

Meira skorið niður í velferðarmálum en í stjórnsýslunni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lilja Mósesdóttir og Ásmundur Einar Daðason sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Það gerði Atli Gíslason líka. Mynd/ GVA.
Lilja Mósesdóttir og Ásmundur Einar Daðason sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Það gerði Atli Gíslason líka. Mynd/ GVA.
Á sama tíma og skorið er verulega niður í mörgum mikilvægum málaflokkum þá er lítið skorið niður í æðstu stjórnsýslu ríkisins, segja þau Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason í yfirlýsingu sem þau samþykktu fyrir atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið í dag. Þingmennirnir þrír, sem öllu eru hluti af þingflokki VG, sátu öll hjá við atkvæðagreiðslu um frumvarpið. Þremenningarnir segja að forgangsröðun innan fjárlaganna sé ekki nægilega mikil í þágu velferðar, menntunar og bættra lífskjara almennings.

„Það er einnig erfitt að réttlæta þá forgangsröðun að á niðurskurðartímum skuli 200 opinberir starfsmenn vinna að aðildarumsókn Íslands að ESB, með milljarða beinum og óbeinum kostnaði. Við undirrituð, og fleiri i þingflokki VG, höfum um nokkurt skeið varað við því að fylgja áfram í blindni efnahagsáætlun AGS. Fjölmargar tillögur okkar varðandi forgangsröðun, tekjuöflun, millifærslur og útgjöld í núverandi fjárlagafrumvarpi hafa ekki fengið málefnalega umræðu. Tillögur okkar hafa verið í samræmi við grunnstefnu VG og ályktanir flokksráðsfunda," segja þremenningarnir í yfirlýsingunni.

Þremenningarnir segjast meðal annars hafa lagt fram tillögur um tekjuöflun fyrir ríkissjóð samhliða róttækri endurskoðun á niðurskurði innan velferðarkerfisins. Þótt nokkuð hafi áunnist í því að afstýra stórslysi í upphaflegum niðurskurðaráformum í heilbrigðisþjónustu landsmanna og innan almannatryggingakerfisins þá sé fjárlagafrumvarpið enn boðberi kreppudýpkandi efnahagsáætlunar sem vegi of harkalega að einmitt þeim grunnstoðum sem núverandi ríkisstjórn hafi lofað að standa vörð um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×