Innlent

Vonandi sameinað fyrr en síðar

Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að sameining sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og iðnaðarráðuneytis í nýtt atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðuneyti sé enn þá á dagskrá hjá ríkisstjórn. Er það í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

„Að því er verið að vinna og ég vona að það verði fyrr en seinna sem það gengur eftir," sagði Jóhanna í samtali við Frétta­blaðið.

Jóhanna sagði aðspurð að í aðdraganda fyrirhugaðrar sameiningar verði hafður svipaður háttur á og var þegar innanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti voru sameinuð um áramót, það er að skipa einn ráðherra yfir tvö ráðuneyti til að undirbúa stofnun nýja ráðuneytisins.

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði í aðsendri grein í Morgunblaðinu á gamlársdag að ekki lægi fyrir að ráðuneytin yrðu sameinuð.

Heimildir Fréttablaðsins herma að stjórnarflokkarnir hafi gert með sér samkomulag þar sem Samfylking hljóti auðlinda- og umhverfisráðuneytið en Vinstri græn fái atvinnuvega­ráðuneytið. Forsætisráðherra sagði þó aðspurð að ekki væri komin niður­staða í það mál. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×