Erlent

Dulmálsskeyti þýtt eftir 147 ár

Óli Tynes skrifar
Skeytið í flöskunni.
Skeytið í flöskunni.

Dulmálssérfræðingur bandarísku leyniþjónustunnar hjálpaði safnstjóra í Richmond í Virginíu að þýða dulmálsskeyti sem hershöfðingi nokkur sendi starfsbróður sínum árið 1863 í bandaríska borgarastríðinu. Örlítil glerflaska með skeytinu hefur verið í Suðurríkjasafninu (Museum of the Confederacy) í Richmond frá árinu 1896. Í henni var 38 cal. byssukúla og bréfmiði sem saumþræði hafði verið vafið utan um. Engum hafði dottið í hug að opna flöskuna og reyna að lesa á miðann þartil nýr safnstjóri rak augun í hana.

Borðuðu hunda og ketti

Catherine M. Wright fékk dulmálssérfræðing til liðs við sig og hann þýddi skeytið. Skeytið var dagsett 4. júlí 1863. Það er frá hershöfðingjanum John G. Walker til hershöfðingjans Johns C. Pemberton. Pemberton stjórnaði þá vörum í borginni Vicksburg í Missisippi sem her norðurríkjamanna sat um. Umsátrið stóð í sex vikur og ástandið í borginni var skelfilegt.

Íbúarnir lögðu sér hunda, ketti og leður til munns. Súpur voru gerðar úr lími fyrir veggfóður.

Í skeytinu segir Walker við Pemberton að hann geti enga aðstoð veitt. Hann hafi hvorki nógu marga hermenn né búnað sem þurfi til að létta umsátrinu og heldur enga leið til þess að koma hermönnum sínum yfir Missisippi fljótið. Það hafði engin áhrif á gang stríðsins að skeytið skyldi ekki berast. Pemberton gafst loks upp 4. júlí, sama dag og skeytið var dagsett.

Neituðu að fagna þjóðhátíðardeginum

Íbúar Vicksburg voru svo mæddir eftir umsátrið að í áttatíu ár neituðu þeir að halda fjórða júlí hátíðlegan. Þjóðhátíðardag Bandaríkjanna. Ástæðan fyrir byssukúlunni í flöskunni litlu er talin vera sú að sendiboðinn hafi átt að fleygja henni í Missisippi fljót, ef norðurríkjamenn yrðu á vegi hans. Kúlan hefði sökkt flöskunni til botns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×