Innlent

Fylgist vel með Haítí

Djákninn Halldór Elías var staddur á Haítí þegar stærðar jarðskjálfti reið yfir eyjuna 12. janúar 2010.
Djákninn Halldór Elías var staddur á Haítí þegar stærðar jarðskjálfti reið yfir eyjuna 12. janúar 2010.
Halldór Elías Guðmundsson djákni var staddur á Haítí þegar stærðar jarðskjálfti reið yfir eyjuna 12. janúar síðastliðinn með þeim afleiðingum að 200 þúsund manns létust og mörg hundruð þúsund urðu heimilislaus. Hann var í námsferðalagi á Haítí og hafði einungis dvalist á eynni í 36 tíma þegar skjálftinn reið yfir. Halldór Elías segist oft hugsa til fólksins sem hann hitti þar úti, en hann komst til Dómíníska lýðveldisins nokkrum dögum eftir skjálftann.

„Ég hugsa ekki endilega svo mikið um skjálftann sjálfan og sef alveg á nóttnni. Ég passaði mig líka mjög á því að taka ekki allt inn sem ég sá og setja mig ekki í aðstæður sem ég réði ekki við. Tengslin sem ég myndaði við fólk þennan tíma eru mér hins vegar mjög hugleikin. Þá er ég að tala um íbúa landsins sem fylgdu hópnum sem ég var í eftir skjálftann, þar með talið starfsfólk Sameinuðu þjóðanna, fólk sem var að vinna við gríðarlega erfiðar aðstæður en tóku okkur engu að síður að sér," Halldór Elías.

Hann var staddur á Haítí til þess að skoða hjálparstarf sem bandarískur söfnuður hefur staðið fyrir á Haítí og hvernig kirkja og hjálparstarf geta spilað saman. „Ég sá það með eigin augum á Haítí hversu mikilvægt það er fyrir innfædda að hafa sjálfir úrræði til að vinna úr, frekar en að hjálpin berist öll að utan," segir Halldór Elías sem hefur fylgst grannt með þróun mála á Haítí síðan hann kom heim. „Mér sýnist það ganga misvel að reisa landið úr rústum, það hefur verið ágætis uppbygging í bænum þar sem við vorum en í Port au Prince er til dæmis svo mikið flæmi að það er miklu erfiðara að ná yfir ástandið þar. Svo eru alls konar óvænt vandamál sem hafa skotið upp kollinum, húsaleiga hefur til dæmis þotið upp út af erlendu hjálparstarfsmönnunum sem þó eru enn nauðsynlegir."

Halldór Elías segist hafa verið mjög upptekinn af því fyrst eftir að hann fór frá Haítí að hann yrði að koma þangað aftur. „En aðstæður eru bara svo erfiðar þarna enn að ég yrði meiri byrði en góður gestur eins og staðan er," segir hann.- sbt

Halldór Elías Guðmundsson djákni var staddur á Haítí þegar stærðar jarðskjálfti reið yfir eyjuna 12. janúar 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×