Innlent

26 létust af slysförum á nýliðnu ári

Á nýliðnu ári létust 26 einstaklingar af slysförum hér á landi, sem er einum fleiri en árið 2009. Heldur dró úr banaslysum í umferðinni en 8 einstaklingar fórust á árinu á móti 17 árið á undan. Sex íslendingar létust erlendis á árinu.

Þetta kemur fram í tölum frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg. Þar segir að flestir hafi látist í heima- og frístundaslysum eða 12 talsins, tveir í vinnuslysum, þrír í drukknunarslysum og einn í sjóslysi.

Langflestir sem létust voru karlmenn eða 17 einstaklingar. Konur sem létust í slysum á árinu voru átta og eitt barn lést af völdum slysfara á árinu.

Slysavarnafélagið Landsbjörg breytti banaslysaskráningu sinni árið 2002 til þess að hafa hana sambærilega við alþjóðaskráningu og skráningu Slysaskrár Íslands. Fram að þeim tíma voru Íslendingar sem létust erlendis t.d. inni í slysatölum félagsins en ekki í slysatölum þess lands sem þeir létust í líkt og nú.

Ekki er hægt að segja að banaslysin hafi orðið frekar á einu tímabili ársins en öðru, en sex Íslendingar létust af slysförum erlendis og eru skráðir í banaslysatölur í viðkomandi landi.

Allt frá árinu 1928 hefur Slysavarnafélagið Landsbjörg skráð banaslys í landinu. Í upphafi voru sjóslys og drukknanir eingöngu skráð en allt frá árinu 1948 hefur félagið skráð öll banaslys. Slysavarnafélagið vottar öllum þeim sem eiga um sárt að binda vegna andláts ástvina samúð, segir í tilkynningu frá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×