Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Keflavík - ÍBV 1-0

Stefán Hirst Friðriksson á Nettóvellinum skrifar
Keflvíkingar unnu í kvöld nokkuð óverðskuldaðan 1-0 sigur á Eyjamönnum í fimmtu umferð Pepsi-deildarinnar. Eina mark leiksins gerði Jóhann Birnir Guðmundsson eftir hrikaleg mistök Abel Dhaira í marki ÍBV.

Leikurinn fór hægt af stað og einkenndist hann af stöðubaráttu og misheppnuðum sendingum liðanna í upphafi.

Liðin fengu þó nokkur þokkaleg tækifæri á fyrsta hálftímanum til þess að komast yfir en inn vildi boltinn ekki.

Eyjamenn fengu svo stuttu síðar langbesta færi hálfleiksins þegar Víðir Þorvarðarson stakk varnarmenn Keflavíkur af og náði fínu skoti sem Ómar Jóhannsson, varði glæsilega í marki Keflavíkur.

Staðan því markalaus í heldur tilþrifalitlum fyrri hálfleik.

Síðari hálfleikurinn byrjaði rólega eins og sá fyrri en Eyjamenn voru þó líklegri til þess að skora. Það var svo gegn gangi leiksins sem heimamenn í Keflavík komust yfir á 64. mínútu.

Jóhann Ragnar Benediktsson átti þá langt innkast inn á teig sem barst til Jóhanns Birnis Guðmundssonar sem skaut beint á Abel Dhaira í marki ÍBV. Honum tókst einhvernveginn að missa boltann undir sig og staðan orðin 1-0 eftir skelfileg mistök markvarðarins.

ÍBV stýrði leiknum eftir markið en náðu sem fyrr ekki að skapa sér almennileg tækifæri og runnu flestar sóknir þeirra út í sandinn.

Jóhann Ragnar Benediktsson, leikmaður Keflavíkur fékk svo að líta rauða spjaldið undir leikslok fyrir leiktöf og flautaði dómari leiksins leikinn af í kjölfarið. 1-0 sigur heimamanna því staðreynd í döprum leik.

Heimamenn voru slakir sóknarlega í leiknum en þeir skoruðu í rauninni úr sínu eina færi í leiknum. Vörn liðsins var þó fyrnasterk og hélt vel allan leikinn.

Eyjamenn geta nagað sig í handarbökin fyrir að hafa klúðrað þessum leik en stýrðu þeir leiknum allan tímann, þó að þeir hafi ekki verið að skapa sér mörg færi.

Zoran: Sigurinn það eina sem skiptir máli

„Við gerðum það sem við ætluðum okkur en það var að sigra leikinn. Við vorum óheppnir í undanförnum leikjum þar sem við hefðum átt að ná í einhver stig.

Við fengum á okkur þrjú mörk í síðasta leik og ætluðum við að bæta varnarleikinn fyrir þennan og gekk það eftir. Ég er stoltur af mínum mönnum í leiknum en þeir voru að leggja sig 100% fram," sagði Zoran.

„Þetta var kannski ekki fallegur leikur en við náðum í sigurinn og það er það eina sem skiptir máli," sagði Zoran Ljubicic, þjálfari Keflavík í leikslok.

Magnús: Menn þurfa að horfa í eigin barm

„Þetta var svolítið saga þessa sumars þessi leikur. Við erum að stýra leikjum og stjórna ferðinni en náum ekki að skapa okkur alveg nægilega góð færi til þess að skora og man ég ekki eftir einu færi Keflavíkur í leiknum, fyrir utan markið," sagði Magnús.

„Við gerum hræðileg mistök í leiknum sem kosta okkur sigurinn. Það virðist vera að öll mistök sem við gerum í sumar kosta okkur mark," bætti Magnús við.

Aðspurður um slakt gengi Eyjamanna í upphafi móts sagði Magnús að byrjunin væri ekki viðunandi

„Þetta er ekki ásættanlegur árangur í upphafi móts en menn verða bara að horfa í eigin barm og skoða hvað betur má fara. Við þurfum bara að horfa á staðreyndir og það horfir við okkur barátta á allt öðrum enda en við viljum," sagði Magnús Gylfason, þjálfari ÍBV í leikslok

Jóhann Birnir: Heppnin með okkur

„Þetta var ekkert sérstakur leikur hjá okkur í dag. Við náðum einhvernveginn ekki að spila eins og við getum en Eyjamönnum tókst ekkert að skapa sér nein færi," sagði Jóhann.

„Við höfum verið óheppnir í undanförnum leikjum þannig að það er jákvætt að heppnin hafi loksins verið með okkur," sagði Jóhann Birnir Guðmundsson, leikmaður Keflavík í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×