Lífið

Pabbi Hemmi hvatti mig til dáða

Marín Manda skrifar
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir er reiðubúin að stíga sín fyrstu skref í sjónvarpi og fetar þar með í fótspor föður síns. Lífsstíls- og matarbloggið hennar hefur notið mikilla vinsælda og fyrsta bók hennar er einnig væntanleg.

Eva Laufey ólst upp á Akranesi með þremur systkinum og foreldrum sínum, Rósu og Steindóri. Áhuginn á matargerð hófst snemma því móðir hennar er kokkur og var dugleg að leyfa krökkunum að prófa sig áfram og smakka. Æskudraumurinn var að verða lögfræðingur en framtíðarplönin breyttust og hún segist hafa uppgötvað mikilvægi þess að njóta dagsins í dag og tileinkar sér að gera hluti sem veita henni hamingju. Lífið getur jú breyst á einu augnabliki.

Það geislar af Evu Laufeyju.
Matarbloggið þitt www.evalaufeykjaran.is nýtur mikilla vinsælda. Hvernig byrjaði það ævintýri?

„Ég byrjaði að blogga fyrir þremur árum en alls ekki með sérstakt matarblogg í huga. Hins vegar þar sem matur er aðaláhugamál mitt fór ég fljótlega að deila matarástinni með lesendum mínum. Fljótlega kom í ljós að lesendum mínum líkaði uppskriftirnar og skref-fyrir-skref myndir af matargerðinni. Lesendum hefur fjölgað mjög mikið á þessum þremur árum og er ég ómetanlega þakklát fyrir svona góða lesendur. Bloggið hefur gefið mér tækifæri sem ég hefði aldrei búist við svo mér þykir orðið svakalega vænt um bloggið.“

Evu Laufey hefur mikla ástríðu fyrir mat.
Er ekki talsverð vinna að halda úti svona bloggi eða verður bloggið ef til vill partur af daglega lífinu?

„Bloggið er löngu orðið partur af mínu daglegu lífi og ég er lánsöm að geta haft það þannig því þetta gerir mig agalega ánægða. Það er auðvitað vinna því maður vill gera hlutina vel. Ég hef verið með svolítið samviskubit í sumar þar sem aðalverkefnið hefur verið bókin sem ég er að gera og mikilvægt var að klára hana. Nú hef ég einnig fengið snilling til þess að endurhanna bloggið og í haust verða skemmtilegar breytingar sem ég hlakka til að kynna fyrir lesendum mínum.“

Eldar þú eitthvað á hverjum degi? 

„Nei, ég elda nú ekki á hverjum degi, ég er líka dugleg að fara út að borða. Mér þykir ekkert skemmtilegra en að prófa nýja veitingastaði. Svo finnst mér líka gott að panta eina góða pitsu af og til. En ég elda oftast.“

 

Hugsar þú mikið út í hráefnið sem þú notar í eldamennskuna og baksturinn?

„Já, ég er meira og meira farin að hugsa um það. Maður verður meðvitaðri þegar maður verður eldri. Ég vil vita hvað ég læt ofan í mig svo að ég er farin að athuga vörurnar betur og velja eftir gæðum fremur en verði. Ég vel bara góða vöru en ekki endilega lífrænt.“ 

Eva Laufey með bróður sínum þegar þau voru lítil.
Hvað finnst þér um LKL-mataræðið?

„Mér finnst svo sem ekkert um það mataræði í raun og veru, þetta er örugglega sniðugt fyrir þá sem kjósa slíkt. Ég þekki marga á þessu mataræði sem eru mjög ánægðir. Það eru líka margar uppskriftir sem ég hef verið að prófa áfram sem falla undir LKL-mataræðið. Ég myndi sennilega aldrei geta verið á neinu sérstöku mataræði, ég get ekki neitað mér um eitt eða neitt. Ég lifi eftir því að allt sé gott í hófi og lífið er allt of stutt til þess að sleppa súkkulaðinu.“

Nú verður þú með þinn eigin þátt á Stöð 3 í vetur. Segðu örlítið frá þeim þætti?

„Ég sótti eftir þessu tækifæri og hafði ákveðna hugmynd að þætti sem Hemma fannst mjög spennandi og því ákvað ég að koma hugmyndinni á framfæri. Þættirnir „Í eldhúsinu hennar Evu“ fara af stað í haust og ég er sérlega spennt. Ég legg ríka áherslu á einfalda, fljótlega og gómsæta rétti í þáttunum. Svo vil ég auðvitað fanga stemninguna við matargerðina og fá fólk til þess að setja upp svuntuna og elda með fólkinu sínu.“

Eva Laufey gefur fljótlega út sína fyrstu bók.
Það má segja að þú sért að feta í fótspor föður þíns, Hemma Gunn, og systur því bæði hafa verið að vinna í sjónvarpi. Er kannski fjölmiðlagen í blóðinu? 

„Fjölmiðlaáhuginn er svo sannarlega til staðar í fjölskyldunni. Ætli ég hafi ekki smitast af þessu hjá þeim en þau hvöttu mig áfram. Ég var svo heppin að geta leitað til þeirra og fengið ráð. Ég er stressuð og spennt í senn en fyrst og fremst ætla ég njóta þess á meðan á því stendur og hafa gaman af þessu.“

Það var mikil sorg þegar faðir þinn, Hermann Gunnarsson, lést fyrir skömmu því hann var elskaður af þjóðinni. Hefur þetta ekki verið erfiður tími? 

„Þetta hefur verið mjög erfiður tími. Ég held að enginn sé sérstaklega búinn undir svona áföll og maður er svo blindur á lífið og tekur því sem sjálfsögðum hlut. Ég er svo ung enn og maður heldur að svona gerist ekki strax heldur í ákveðinni tímaröð. Það var svo mikið eftir hjá okkur og fjörið í raun rétt að byrja. Ég hef verið rík að eiga tvo pabba í mínu lífi en Steindór ól mig upp frá því ég var eins árs gömul. Hermann var ekki á góðum stað þegar ég var yngri þannig að það var ekki venjulegt samband okkar á milli. 

Það er mikill drifkraftur í Evu Laufeyju.
Eftir því sem ég varð eldri fór ég sjálf að hafa samband og hann fór að sinna okkur systkinunum betur. Loksins var sambandið orðið gott og við gátum átt eðlileg samskipti. Ég kallaði hann aldrei pabba en hann var stór hluti af mínu lífi og ég vildi hafa hann í mínu lífi. Mig vantar hann voðalega mikið nú þegar ég er að gefa út bókina og taka mín fyrstu skref í sjónvarpi. Hann var svo spenntur fyrir þessu hjá mér og hvatti mig til dáða og að kýla á tækifærin og trúa á sjálfa mig.

Í síðasta sinn sem við töluðum saman töluðum við um þáttinn. Við ætluðum að skoða þetta saman um leið og hann kæmi heim. Hann vildi vera með í öllu og fannst agalegt að hann gat ekki verið viðstaddur upptöku á prufuþættinum í vor. Hann vildi svo ólmur hjálpa til og leiðbeina mér. Ég efast ekki um að hann sé að hjálpa mér í dag, eða það ætla ég rétt að vona. Lífið er svo skrítið því þetta ár hefur verið ótrúlega gott en á sama tíma ótrúlega erfitt.

Ég hef fengið þau tækifæri sem mig hefur dreymt um og reyni að njóta þess í botn, en sakna þess að hafa hann ekki hér hjá okkur. Ég hef tileinkað mér að lifa í deginum í dag, lífið er alltof stutt fyrir leiðindi og ég reyni að einbeita mér að því góða og gera það sem gerir mig hamingjusama. Ég vil ekki líta til baka og hugsa að ég hefði átt að gera hlutina öðruvísi.“

Eva Laufey og Haraldur kærasti hennar við Gullfoss.
Fenguð þið að syrgja hann í friði sem var svona mikil þjóðareign? 

„Þetta var svolítið erfitt, því þegar hann lést var hringt í mig tveimur tímum seinna frá fjölmiðli og ég var náttúrulega ekki viðræðuhæf. Ég var ekki tilbúin að segja neitt og ég vissi ekki hvað var að gerast. Mig langaði ekki að deila með öllum þessum tilfinningum sem voru að bærast innra með mér. Ég skil það svo sem vel því hann var svo áberandi í þjóðfélaginu en það var erfitt að fara út úr húsi því allir vissu hvað var að gerast.

Fólk vildi vera elskulegt og allir meina vel en maður er lengi að jafna sig. Það bjargaði okkur systkinunum að vera mikið saman og hlæja saman og gera grín að honum. Ég er líka svo rík að eiga svo góða að, tengdafjölskyldu og vini. Það er ómetanlegt að eiga svo gott fólk í kringum sig á erfiðum tímum.“

Eva og systir hennar á góðri stundu.
Þú situr aldeilis ekki auðum höndum því nú er einnig von á bók frá þér sem kemur út fyrir jólin, Matargleði Evu. Hvernig verður sú bók? 

„Ég tengi mat svo mikið við alls konar minningar og ég er að reyna að gera persónulega matreiðslubók. Þetta er heimilismatur, uppskriftir frá ömmu minni og fleirum sem hafa ferðast í minni fjölskyldu í mörg ár. Ég reyni að fanga stemningu við matargerð og matarboð. Ég á mínar bestu stundir með fjölskyldu og vinum við matarborðið, ég vil að það skíni í gegn hvað það skiptir miklu máli að njóta þess að vera með fjölskyldu og vinum, og borða góðan mat auðvitað.“

Það er stutt í hláturinn og brosið í forsíðu myndatökunni fyrir Lífið.
Hver veitir þér innblástur í lífinu?

„Þetta er kannski klisjukennt en ég verð að segja að það sé fjölskyldan mín.“



Hverjir eru svo framtíðardraumarnir? 

„Eins og staðan er í dag ætla ég að klára viðskiptafræðina og ætla svo sannarlega að hafa matinn sem aðalatriðið hjá mér, ástríðan mín liggur í matnum og ég hugsa að draumarnir séu að gera það sem mér þykir skemmtilegast. Lífið er ótrúlegt og við vitum aldrei hvað er handan við hornið, svo ég ætla bara að njóta þess sem ég hef í dag, fylgja þeim verkefnum eftir sem ég er að vinna að núna og gera mitt allra besta.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×