Innlent

Laddi: "Hemma verður sárt saknað"

KH skrifar
Hemmi og Laddi á góðri stundu. Elsa Lund, sem Laddi lék með eftirminnilegum hætti í þáttunum hans Hemma, er ein skrautlegasta persóna sem birst hefur í íelsnku sjónvarpi.
Hemmi og Laddi á góðri stundu. Elsa Lund, sem Laddi lék með eftirminnilegum hætti í þáttunum hans Hemma, er ein skrautlegasta persóna sem birst hefur í íelsnku sjónvarpi.

"Ég á eftir að sakna hans ótrúlega mikið. Þetta er algjört reiðarslag. Ég er ekki búinn að átta mig á þessu ennþá. Þetta er svo ótrúlegt," segir Þórhallur Sigurðsson leikari, betur þekktur sem Laddi, um fráfall Hermanns Gunnarssonar.

Laddi og Hemmi Gunn voru nánir vinir en leiðir þeirra lágu fyrst saman í sjónvarpinu fyrir um 30 árum þegar þátturinn Á tali með Hemma hóf göngu sína. Þátturinn er vinsælasti þáttur sem gengið hefur í íslensku sjónvarpi en þar urðu persónur á borð við Dengsa og Elsu Lund til, sem Laddi túlkaði með eftirminnilegum hætti. 

"Ég kem til með að sakna hans alveg rosalega  -  að heyra ekki í honum og hlátrinum hans. Ég á eftir að sakna þess að koma ekki í útvarpið til hans. Hann lét ekki bara duga að tala við mig þegar ég kom í heimsókn heldur alla karakterana. Það var hlegið alveg út í eitt," segir Laddi. "Ég held að öll þjóðin eigi eftir að sakna hans enda var hann afskaplega góður drengur og vildi alltaf gera öllum gott. Hann vildi alltaf hjálpa minnimáttar og hann var með eitt stærsta hjarta sem ég hef kynnst."

Laddi kom fram í síðasta þætti Hemma á Bylgjunni þann 22. apríl síðast liðinn. "Ég var í síðasta þættinum hans á Bylgjunni en síðan fór hann út til að leggja lokahönd á bókina sína," segir Laddi. "Hemma er sárt saknað meðal allra vina hans og ég myndi halda með þjóðinni allri."

Í meðfylgjandi hljóðbroti má heyra þegar Laddi heimsótti Hemma í síðasta þáttinn hans á Bylgjunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×