Erlent

Mannrán í Lundúnum: Konurnar þakka góðgerðarsamtökum

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Konurnar treystu Aneeta Prem þar sem þær höfðu oft séð hana í sjónvarpinu.
Konurnar treystu Aneeta Prem þar sem þær höfðu oft séð hana í sjónvarpinu.
Konurnar þrjár, sem lögreglan í Lundúnum bjargaði af heimili í síðasta mánuði þar sem konunum hafði verið haldið nauðugum í 30 ár, þakka góðgerðarsamtökunum Fredom Charity fyrir að vera loksins frjálsar. Þetta kemur fram hjá Guardian.

Eins og fram kom í fréttum Vísis í gær er sú elsta 69 ára gömul frá Malasíu, næsta er 57 ára frá Írlandi og sú þriðja bresk og þrítug að aldri. Maðurinn og konan sem voru handtekin vegna málsins eru bæði 67 ára.

Parið er breskir ríkisborgarar. Þau hafa nú verið látin laus gegn tryggingu.

Lögreglan segir að þessi hrikalega saga sé vitni um að þrælahald sé að aukast á Bretlandi.

Aneeta Prem, forstöðumaður góðgerðarsamtakana Freedom Charity, hitti konurnar þrjár í gær. Þrátt fyrir að þær séu að mörgu leyti ekki í góðu ástandi séu þær frelsinu fegnar. Þær tóku utan um Aneeta og hún segir að það hafi verið grátið mikið.

Írska konan hafði séð Aneeta Prem í sjónvarpinu þar sem hún talaði um samtökin. Henni fannst hún geta treyst henni og hafði samband við hana í október og sagði að sér og tveimur öðrum konum hefði verið haldið nauðgum í 30 ár.

Konurnar héldu áfram að vera í sambandi við góðgerðarsamtökin í gegnum síma. Þær voru þó hræddar um að það kæmist upp um að þær væru að hringja.

Aneeta segir að sú ákvörðun hafi verið tekin að sækja þær ekki strax og frekar nýta tíma til að rannsaka málið og fá upplýsingar frá þeim. Eftir 30 ára nauðungarvist voru konurnar  líka mjög hræddar og eins og skiljanlegt er eiga þær erfitt með að treysta fólki.

Málið er enn í rannsókn en að svo stöddu liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um að þær hafi verið beittar líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×