Innlent

Stefnt að þinglokum í kvöld þrátt fyrir deilur

Karen Kjartansdóttir skrifar
Enn logar allt í ágreiningi á Alþingi um stjórnarskrármálið og fleiri stór mál en þó er stefnt að þinglokum í kvöld. Um hundrað stuðningsmenn nýrrar stjórnarskrár mótmæla nú á Austurvelli.

Þingmenn ætla að deila fram á síðustu mínútu um hvaða mál verða afgreidd áður en þeir halda inn í kosningabaráttuna eftir helgi. En nú á lokametrunum standa yfir deilur stjórnarflokkanna við þá um afgreiðslu frumvarps um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala, sem Framsóknarmenn leggjast gegn, eða vilja að minnsta kosti fresta gildistöku laganna fram á haust.

Önnur umdeild mál verða væntanlega afgreidd í kvöld, eins og tvö frumvörp varðandi fjárfestingarsamning og stuðningsaðgerðir við Kísilver á Bakka við Húsavík, sem nokkur andstaða er við innan beggja stjórnarflokka, og verður frumvarp um náttúruvernd að lögum.

Umdeildasta málið er þó stjórnarskrárfrumvarið. Einungis breytingarákvæði stjórnarskrárinnar náði í gegn og verður til bráðabirgða út næsta kjörtímabil. Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar segir mikilvægt að hægt verði að halda stjórnarskrárvinnunni áfram á næsta kjörtímabili.

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins sagði að þar sem málið væri ekki flutt af fulltrúum allra þingflokka væri óvissa um hvernig afdrif þess yrðu á næsta þingi.

Þór Saari líkti íslensku stjórnarfari við ríki þar sem spilling hefði étið stjórnarfarið að innan vegna getuleysis til að breytast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×