Erlent

Mannrán í Lundúnum: Þremur konum bjargað eftir þrjátíu ára prísund

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Að sögn BBC er um að ræða 69 ára konu frá Malasíu, 57 ára konu frá Írlandi og þrítuga breska konu.
Að sögn BBC er um að ræða 69 ára konu frá Malasíu, 57 ára konu frá Írlandi og þrítuga breska konu. mynd/getty
Þremur konum var bjargað úr húsi í suðurhluta Lundúna í síðasta mánuði og er talið að þeim hafi verið rænt og haldið nauðugum í húsinu í þrjátíu ár. Maður og kona voru handtekin í dag vegna gruns um aðild að málinu.

Rannsóknin hófst eftir að ein kvennanna hafði samband við góðgerðarsamtök og sagði frá. Samtökin höfðu samband við lögreglu í síðasta mánuði sem hóf rannsókn málsins.

Að sögn BBC er um að ræða 69 ára konu frá Malasíu, 57 ára konu frá Írlandi og þrítuga breska konu. Þær eru sagðar í miklu áfalli. Maðurinn og konan sem handtekin voru eru bæði 67 ára.

„Samtökin eiga hrós skilið fyrir viðbrögð sín,“ segir rannsóknarlögreglumaðurinn Kevin Hyland. „Við höfum hafið umfangsmikla rannsókn til að varpa ljósi á það sem gerðist.“

Nánari upplýsingar um málið liggja ekki fyrir að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×