Innlent

Rændu Pétursbúð með hafnaboltakylfu og sprautunál

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögregluþjónn skoðar upptöku úr öryggismyndavél í Pétursbúð í kvöld.
Lögregluþjónn skoðar upptöku úr öryggismyndavél í Pétursbúð í kvöld. Vísir/Kolbeinn Tumi
Tveir grímuklæddir menn vopnaðir hafnaboltakylfu og sprautunál rændu Pétursbúð við Ránargötu í Vesturbæ Reykjavíkur um tíuleytið í kvöld. Lögregla var hins vegar snör í snúningum og handtók mennina ekki löngu síðar.

Blaðamaður Vísis ræddi við fólk á staðnum en afgreiðslustúlka stóð ein vaktina þegar mennina tvo bar að garði. Hótuðu þeir stúlkunni og höfðu á brott með sér alla þá peninga sem var að finna í afgreiðslukassanum. Afgreiðslustúkuna sakaði ekki.

Atvikið náðist á eftirlitsmyndavél og var lögregluþjónn að skoða upptökur úr henni ásamt starfsmanni Öryggismiðstöðvarinnar þegar blaðamann bar að garði um klukkan 22:25. Skömmu síðar staðfesti lögregluþjónninn að búið væri að handtaka mennina og vonir stæðu til að þeir myndu vísa á þýfið.

Eigandi Pétursbúðar vildi ekki gefa upp í samtali við blaðamann hve mikla peninga mennirnir hefðu haft á brott með sér.

Starfsmaður Öryggismiðstöðvarinnar mætti á vettvang.Vísir/Kolbeinn Tumi
Lögreglubíll á vettvangi við Ránargötuna í kvöld.Vísir/Kolbeinn Tumi



Fleiri fréttir

Sjá meira


×