Innlent

Margdæmdur skattsvikari í átján mánaða fangelsi

Bjarki Ármannsson skrifar
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag Jón Arnar Pálmason í eins og hálfs árs skilorðsbundið fangelsi fyrir meiriháttar brot á skattalögum.
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag Jón Arnar Pálmason í eins og hálfs árs skilorðsbundið fangelsi fyrir meiriháttar brot á skattalögum. Vísir
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag Jón Arnar Pálmason í eins og hálfs árs skilorðsbundið fangelsi fyrir meiriháttar brot á skattalögum. Þá þarf hann að greiða 32 og hálfa milljón í sekt til ríkissjóðs ellegar sæta fangelsi í níu mánuði.

Jón játaði brot sín fyrir dómi en hann stóð ekki skil á virðisaukaskattskýrslum sem stjórnarmaður einkahlutafélagsins Protak, sem nú er gjaldþrota. Alls nam vangoldinn virðisaukaskattur félagsins rúmlega fimmtán milljónum króna vegna uppgjörstímabilanna september-október 2012 til og með mars-apríl á þessu ári. Þá stóð hann ekki skil á staðgreiðslu opinberra gjalda árin 2012 og 2013, alls rúmlega 360 þúsund krónur.

Jón hefur tvisvar áður hlotið skilorðsbundinn dóm fyrir brot gegn sömu lagaákvæðum, árin 2011 og 2012. Hann hóf í maí síðastliðnum afplánun tæplega árs vararefsingar vegna þeirra dóma en samkvæmt þeim bar honum að greiða tæplega sextíu milljóna króna sekt í ríkissjóð, sem hann gerði ekki.

Með þeim brotum sem Jón var dæmdur fyrir í dag rauf hann skilorð dómsins frá því árið 2012 og var meðal annars litið til þess við ákvörðun fangelsisrefsingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×