Erlent

Skipstjóri Costa Concordia sekur um manndráp

Atli Ísleifsson skrifar
Francesco Schettino stýrði skipinu Costa Concordia þegar skipið sökk í janúar 2012.
Francesco Schettino stýrði skipinu Costa Concordia þegar skipið sökk í janúar 2012. Vísir/AFP
Ítalskur dómstóll hefur fundið ítalska skipstjórann Francesco Schettino sekan um manndráp. Dómurinn dæmdi Schettino  í sextán ára fangelsi. Schettino stýrði skipinu Costa Concordia þegar það rakst á sker og sökk í Miðjarðarhafi árið 2012 með þeim afleiðinum að 32 manns fórust.

Réttarhöldunum lauk í dag en í ræðu sinni fyrir dómnum sagði Schettino að fjölmiðlar hefðu farið illa með sig síðustu þrjú ár. Sagði hann að allri ábyrgðinni hefði verið varpað á sig, án tillits til sannleikans né minningar þeirra sem létust. Honum tókst ekki að ljúka máli sínu þar sem hann brast í grát og settist aftur niður.

Schettino og verjendur hans sögðu að hann hafi beðið með að láta farþega yfirgefa skipið því hann vildi ekki að farþegarnir myndu hoppa í sjóinn. Þá hafi hann reiknað með því að skipið myndi færast nær eynni, vegna vinds og strauma.

Schettino sagði að skerið sem skipið lenti á hafi ekki verið á kortum. Þá var skipinu siglt nær eyjunni en til stóð og Schettino segir að eigandi skipsins hafi sagt honum að gera það.

Skipstjórinn segir þar að auki að hann hafi ekki yfirgefið skipið viljandi heldur hafi hann fallið útbyrðis. Hann var mikið gagnrýndur fyrir að hafa yfirgefið skipið á meðan fjöldi farþega var enn í bráðri lífshættu og því ekki farið síðastur frá borði.


Tengdar fréttir

Skipstjóri Costa Concordia brast í grát

Francesco Schettino sagði að skipafélagið ætti sök á slysinu sem 32 létust í og sagði fjölmiðla hafa verið ósanngjarna gagnvart sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×