Erlent

Skipstjóri Costa Concordia bíður örlaga sinna

Atli Ísleifsson skrifar
Dómari mun brátt úrskurða hvort skipstjórinn Francesco Schettino hafi gerst sekur um manndráp.
Dómari mun brátt úrskurða hvort skipstjórinn Francesco Schettino hafi gerst sekur um manndráp. Vísir/AFP
Réttarhöldum yfir skipstjóra skipsins Costa Concordia, sem strandaði undan ítölsku eynni Giglio í ársbyrjun 2012, fer senn að ljúka. 32 farþegar skipsins fórust þegar skipinu var stýrt of nálægt landi og var siglt á kletta.

Dómari mun brátt úrskurða hvort skipstjórinn Francesco Schettino hafi gerst sekur um manndráp. Saksóknarar hafa farið fram á að Schettino verði dæmdur í 26 ára fangelsi en skipstjórinn neitar öllum ákæruliðum.

Í frétt BBC segir að saksóknarar og verjendur hafi nú flutt lokaræður sínar og styttist í að dómarar kveði upp úrskurð sinn í málinu.

Schettino segir að hann hafi reynt að „heilsa“ eyjunni, með því að sigla nærri strönd hennar. Hafi það verið gert til að vekja hrifningu farþega sem og eyjaskeggja. Aðgerðin hafi hins vegar endað með hörmungum þar sem um fjögur þúsund farþegar og áhafnarmeðlimir hafi neyðst til að yfirgefa skipið.

Saksóknarar segja að skipstjórinn hafi gerst sekur um stórkostlega vanrækslu. Hafi hann flúið skipið á meðan fjöldi farþega var enn í miklum lífsháska. „Það er ekki bara hefð að skipstjórinn skuli yfirgefa skipið síðastur, heldur lagaleg skylda ætluð til að lágmarka manntjón.“ Segja þeir að Schettino hafi einungis og ávallt hugsað um sjálfan sig.


Tengdar fréttir

Skipstjórinn grét um borð

Francesco Schettino, skipstjóra skemmtiferðaskipsins Costa Concordia, var hleypt um borð í flak skipsins í dag í fyrsta sinn eftir að skipið strandaði í janúar 2012.

Costa Concordia dregið af stað

Ítalska skemmtiferðaskipið Costa Concordia er nú í sinni hinstu siglingu en flak skipsins var dregið af stað í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×