Erlent

Ferðamennirnir í Malasíu dæmdir í fangelsi

Samúel Karl Ólason skrifar
Þessari mynd var deilt víða á samfélagsmiðlum eftir atvikið.
Þessari mynd var deilt víða á samfélagsmiðlum eftir atvikið.
Fjórir vestrænir ferðamenn hafa verið dæmdir í þriggja daga fangelsi og til að greiða sekt í Malasíu. Þau voru dæmd fyrir að hafa farið úr fötunum á Kinabalufjalli, sem heimamenn segja heilagt. Auk sex annarra hafa þau verið sökuð um að valda 5,9 stiga jarðskjálfta með fíflaskap sínum.

Þau voru sögð hafa gert anda fjallsins reiða.

Um er að ræða þau Eleanor Hawkins frá Bretlandi, Lindsey og Danielle Peterson frá Kanada og Dylan Snel frá Hollandi. Þau játuðu öll í dómsal í morgun. Saksóknarar sögðu þau hafa klifrað á tind fjallsins þann 30. maí þar sem þau mönuðu hvort annað til að fara úr fötunum.

Þau voru ákærð fyrir klámfengin gjörning á almannafæri og áttu mögulega yfir höfði sér þriggja mánaða fangelsisvist, samkvæmt BBC.

Þau voru einnig sögð hafa sagt leiðsögumanni sínum að „fara til helvítis“ þegar hann bað þau um að fara ekki úr fötunum og að pissa í tjörn á tindi fjallsins. Lögmaður þeirra sagði þó að þau hefðu ekki farið eftir fyrirmælum leiðsögumannsins en þau hefðu ekki sagt honum að fara til helvítis.

Ronny Cham, lögmaður þeirra, sagði að þau hefðu orðið sér til skammar og þau hefðu ekki þekkt siði heimafólksins. Hann bað dómarann um að gera þau ekki að fordæmi og að athyglin sem að þeim hefði beinst vegna málsins væri í raun næg refsing.

Auk fangelsisdómsins var þeim gert að greiða rúmar 200 þúsund krónur í sekt. Yfirvöld Malasíu leita enn að hinum sex úr hópnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×