Innlent

Segir sjálfsagt að endurskoða hvernig staðið er að skipan dómara

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Formaður stjórnskipunar og eftirlitsnefndar alþingis og fyrrverandi dómsmálaráðherra segist fagna ummælum Ólafar Nordal um að hugsanlega þurfi að skoða hvernig staðið er að skipan dómara, í tilefni frétta um skipun dómnefndar til að fjalla um hæfi umsækjenda um dómaraembætti. Hann segir að tilnefningaraðilar hafi aldrei virt jafnréttislög þrátt fyrir ítrekaðar óskir um það.

 

Ólöf segir í Fréttablaðinu í dag að hugsanlega þurfi að skoða hvernig staðið sé að skipan dómara. Hún segir að allir þrír umsækjendur um lausa stöðu hæstaréttardómara séu afburðamenn, en hæfnisnefnd sem starfað hefur samkvæmt lögum frá 2010 lagði til að karl Axelsson, starfandi hæstaréttardómari yrði skipaður. Gagnrýnt hefur verið að nefndin sé einungis skipuð karlmönnum. Ögmundur Jónasson formaður stjórnskipunar og eftirlitsnefndar Alþingis segist taka undir með Ólöfu.

„Ég fagna þessari afstöðu ráðherrans og tek eindregið undir hennar sjónarmið. Allar götur frá 2010 þá hefur tilfnefningaraðilum í nefndina, Hæstarétti, dómstólaráði, Lögmannafélaginu og Alþingi verið bent á mikilvægi þess að horfa til jafnréttislaga, að það sé horft til kynjahlutfalls, en þetta hefur aldrei verið virt þrátt fyrir ítrekuð skilaboð og óskir til þessara aðila. Fyrst það er ekki gert þá finnst mér alveg sjálfsagt að við tökum fyrirkomulagið til endurskoðunar.“

Einboðið hver andi jafnréttislaga er

Ögmundur var dómsmálaráðherra þegar bréfaskriftir áttu sér stað á milli dómsmálaráðuneytisins og Hæstaréttar, dómstólaráðs og Lögmannafélags Íslands, þar sem fram kom að félögin telji sig ekki bundin af jafnréttislögum þegar kemur að því að skipa fulltrúa í nefnd sem fjallar um hæfi umsækjenda um embætti hæstaréttardómara og héraðsdómara. Þau telja að ákvæði um nefndina í lögum um dómstóla gangi framar jafnréttislögunum.

„Þessar bréfaskriftir hófust í tíð Rögnu Árnadóttur og ég hélt þeim áfram og reyndi að þrýsta á um þetta en hvers vegna það fór ekki lengra, ja, ég segi ekki annað en það að það finnst mér vera réttmæt gagnrýni.“

Ráðherra getur hunsað mat nefndarinnar en þarf þá stuðning Alþingis við skipan dómarans. En gilda jafnréttislög ekki um alla?

„Ég ætla ekkert að kveða upp úr um það hvað gildir en hitt er alveg einboðið að við vitum hver er andi laganna og hver eru viðhorfin í samfélaginu og hvert við viljum stefna, sérstaklega hvað þetta varðar. Okkur ber að reyna að virða það,“ sagði Ögmundur Jónasson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×