Innlent

Sigmundur rúmlega fimmfalt dýrari en Jóhanna

Heimir Már Pétursson skrifar
Kostnaður við utanlandsferðir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar rúmlega fimm sinnum meiri en Jóhönnu Sigurðardóttur.
Kostnaður við utanlandsferðir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar rúmlega fimm sinnum meiri en Jóhönnu Sigurðardóttur.
Utanríkisráðherra hefur verið í útlöndum í tæpa sjö mánuði af þeim 25 mánuðum sem hann hefur gengt embætti, lengur en nokkur ráðherra í núverandi og fyrrverandi ríkisstjórn. Þá er kostnaðurinn við ferðalög hans einnig langt um meiri en nokkurs annars ráðherra á undanförnum sex árum eða fimmtíu og tvær og hálf milljón króna.

Frá því ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við völdum í maí árið 2013 hafa ráðherrar stjórnarinnar verið mis mikið á faralndsfæti. Kostnaður við ferðalög þeirra og aðstoðarmanna til útlanda síðast liðna 25 mánuði hefur verið 157 milljónir króna, en var 107 milljónir á sama verðlagi á fyrstu 28 mánuðum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Gunnar Bragi Sveinsson á ferðametið en kostnaður við utanferðir hans er rúmar 52 milljónir. Ragnheiður Elín Árnadóttir kemur þar á eftir með 19,3 milljónir króna og forsætisráðherrann er í þriðja sæti með 16,7 milljónir. Ferðalög menntamálaráðherra hafa kostað 15,3 milljónir og Bjarni Beneditksson er í fimmta sæti hvað þennan kostnað varðar með 11,7 milljónir. Ferðakostnaður annarra ráðherra er minni eða allt niður í 2,2 milljónir hjá núverandi innanríkisráðherra sem setið hefur skemmst í ríkisstjórn og enginn hjá umhverfisráðherra.

Ferðakostnaður núverandi ráðherra er ríflega helmingi meiri en fyrri ríkisstjórnar á föstu verðlagi en Össur Skarphéðinsson átti metið í síðustu ríkisstjórn með 19,2 milljónir. Kostnaðurinn við ferðalög hans er þó öllu meiri því kostnaður við ferðir aðstoðarmanna í ferðum hans er ekki inni í þessari tölu. Kostnaður við utanferðir Steingríms J. Sigfússonar var 15 milljónir og á eftir honum komu síðan Árni Páll Árnason með 13,5 og Katrín Júlíusdóttir með 11,6 milljónir. Athygli vekur að Jóhanna Sigurðardóttir ferðaðist aðeins fyrir 3,3 milljónir, eða rúmlega fimm sinnum minna fé en núverandi forsætisráðherra.

Þegar horft er til fjölda ferðadaga tróna utanríkisráðherrarnir á toppnum, Gunnar Bragi með 199 daga og Össur með 153. Steingrímur Joð var í útlöndum í 59 daga en Bjarni Benediktsson í 39 daga. Sigmundur Davíð hefur verið í útlöndum í rúma tvo mánuði eða 62 daga en fyrstu 28 mánuðina af stjórnartíð Jóhönnu var hún í útlöndum á vegum stjórnvalda í 26 daga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×