Innlent

Segir marga þegar hafa breytt verði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er ekki einhugur um það í ríkisstjórn hvernig eigi að standa að verðlagseftirliti.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er ekki einhugur um það í ríkisstjórn hvernig eigi að standa að verðlagseftirliti. Fréttablaðið/GVA
Ekkert hefur verið ákveðið um aðkomu stjórnvalda að verðlagseftirliti eftir að ný lög um virðisaukaskatt tóku gildi um áramót. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru skiptar skoðanir á því meðal ráðherra hvernig standa eigi að slíku eftirliti.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í Kryddsíld á Stöð 2 á gamlársdag að besta eftirlitið væri fólgið í alvöru samkeppni á markaði. „Og það er til skoðunar í ríkisstjórninni hvort við getum efnt til samstarfs við hagsmunaaðila um að fylgjast vel með þessari þróun,“ sagði hann þá.

Bjarni útskýrði ekki hvernig staðið væri að slíku samstarfi. Ólöf Nordal, ráðherra neytendamála, gaf ekki kost á viðtali um málið þegar Fréttablaðið sóttist eftir því í gær.

Henny Hinz.
„Svona eftirlit þarf að undirbúa áður en breytingin á sér stað. Það er svolítið seint að byrja að gera það núna,“ segir Henny Hinz, hagfræðingur ASÍ. Hún segir að hvorki hafi stjórnvöld falast eftir samstarfi um þetta við ASÍ, né ASÍ falast eftir samstarfi við stjórnvöld.

ASÍ hafi aftur á móti hafist handa við undirbúning að því að bregðast við breyttu verðlagi um leið og drög að virðisaukaskattsfrumvarpinu voru kynnt í haust. Hún segir að verðlagseftirlit ASÍ hafi verið útvíkkað.

Ólafur Stephensen.
Þá segir Henny að ASÍ muni einnig fylgjast vel með mælingum Hagstofunnar á neysluverðsvísitölunni. Það gefi mjög góða vísbendingu um þróunina á markaðnum almennt. „En okkar vinna felst frekar í því að skoða hvað einstaka söluaðilar eru að gera,“ segir Henny.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að það verði að hafa í huga þegar verðbreytingar um áramót eru skoðaðar að margir innflytjendur og seljendur heimilis- og raftækja hafi þegar lækkað verð til samræmis við afnám vörugjaldanna.

„Þetta töldu mörg fyrirtæki sig verða að gera strax í september þegar frumvarp um afnám vörugjalda kom fram á Alþingi, einfaldlega til að tryggja sölu það sem eftir lifði árs,“ segir Ólafur. Ella hefðu verið líkur á að margir hefðu frestað kaupum á raftækjum fram yfir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×