Innlent

Íbúar ósáttir og boða málaferli við borgina

viktoría hermannsdóttir skrifar
Jón Reynir Magnússon, formaður húsfélagsins að Þorragötu 5-9, segir íbúa afar ósátta við fyrirhugaðar breytingar á starfi Þorrasels.
Jón Reynir Magnússon, formaður húsfélagsins að Þorragötu 5-9, segir íbúa afar ósátta við fyrirhugaðar breytingar á starfi Þorrasels. Fréttablaðið/GVA
„Það hefur enginn áhuga á að fara í stríð við þetta ágæta fólk sem þarna býr en við þurfum bara að reka þetta innan fjárheimilda,“ segir Stefán Eiríksson, sviðstjóri á velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

Íbúar fjölbýlishússins að Þorragötu 5-9 ætla að höfða mál gegn Reykjavíkurborg, ef ekki verður horfið frá þeim áformum að breyta eða hætta starfsemi Þorrasels sem er dagdvöl sem borgin hefur rekið þar fyrir aldraða. Velferðarráð samþykkti í október að breyta starfsemi Þorrasels úr dagdvöl fyrir aldraða í skrifstofur fyrir starfsemi á vegum ráðsins.

„Við teljum að það sé verið að brjóta lög gegn okkur,“ segir Jón Reynir Magnússon, formaður húsfélagsins Þorragötu 5-9.

Jón Reynir segir brotið gegn rétti íbúanna sem búa í fjölbýlishúsinu þar sem engin grenndarkynning hafi farið fram á þeim breytingum sem velferðarráð Reykjavíkur ætlar að gera á Þorraseli. Byggingaleyfi fyrir lóðinni var gefið út fyrir fjölbýlishús og þjónustumiðstöð fyrir aldraðra. Samkomulag milli húsfélagsins og borgarverkfræðingsins er í gildi en þar segir til um að breytingar á skipulagi hvors lóðarhluta sé háð samþykki beggja aðila þar sem kemur fram í lóðarleigusamningi að lóð 3-9 við Þorragötu sé ein lóð og á henni séu kvaðir, meðal annars að þjónustumiðstöð aldraðra sé á lóðinni. Því sé það brot á lögum um fjöleignarhús að breyta starfseminni ef það liggi ekki fyrir samþykki íbúanna.

Jón Reynir segir íbúa hússins ósátta við að starfsemi Þorrasels verði breytt. Færa á starfið yfir á Vesturgötu þar sem fyrir er starfssemi fyrir eldri borgara.

Sjálfur hefur Jón Reynir búið í húsinu í 20 ár. „Sumir hér hafa keypt íbúðir hér og gert ráð fyrir þessari þjónustu hér við hliðina á sér og því eru þetta að vissu leyti svik við þá. Þessi þjónustumiðstöð er ekkert sérstaklega byggð fyrir okkur í sjálfu sér en það eru nokkrir sem búa hér sem hafa notfært sér þetta,“ segir Jón Reynir.

Stefán Eiríksson segir að málið sé í samráðsferli. „Við erum í þessu ferli núna að ræða við alla hluthafandi aðila núna, þar á meðal íbúa þarna og þeirra mótmæli hafa komið fram mjög skýrt og afdráttarlaust,“ segir Stefán.

Hann segir þjónustuna í Þorraseli hafa verið rekna með miklum halla undanfarin ár og því sé verið að leita leiða til hagræðingar. „Vandinn er sá að við erum ekki að reka þarna þjónustusel eins og var gert ráð fyrir tuttugu og eitthvað árum heldur erum við að reka dagdeild fyrir aldraða sem er greidd með þjónustugjöldum frá ríkinu.

Undanfarin ár hefur þetta ekki staðið undir þeim rekstri sem þarna er og það er margra milljóna halli á hverju ári. Við getum ekki með ábyrgum hætti haldið því úti þannig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×