Lífið

Tók að sér heimilislausan hund

Manuela ásamt hundinum Suzie Q.
Manuela ásamt hundinum Suzie Q. Ljósmynd/Af Instagram-síðu Manuelu
Manuela Ósk Harðardóttir er mikill dýravinur og hundamanneskja. Nýverið tók hún að sér fjögurra ára chihuahua-hund sem hafði verið yfirgefinn af eiganda sínum. Hún segir hundinn hafa aðlagast vel og fært sér og fjölskyldu sinni mikla gleði.

Manuela flutti fyrir nokkrum mánuðum til Los Angeles ásamt fjölskyldu sinni til að stunda nám. Hún er búin að koma sér vel fyrir á nýja staðnum og er meira að segja búin að fá sér hund. Hundurinn heitir Suzie Q og hefur átt erfiða ævi.

„Ég fékk hundinn minn hjá hundaskýli hérna í Los Angeles sem heitir Dogs Without Borders. Á hverjum sunnudegi er hægt að fara í dýrabúð í hverfinu mínu og skoða hundana sem þessi samtök hafa bjargað og þar sem dóttir mín er gjörsamlega hundasjúk þá var ekkert annað í stöðunni en að fara með hana að skoða. Eðlilega labbaði ég út með hund í bandi, enda tekur það virkilega á mann að sjá þessi litlu grey sem mörg hver hafa þolað hræðilegt ofbeldi og mikla vanrækslu,“ segir Manuela.

Þegar kom að því að velja hund lagði Manuela áherslu á að hundurinn væri góður í návist barna. „Það er mjög mikið af hundum í boði og auðvitað er erfitt að velja en ég spurði yfirmanninn bara hvaða hundar væru góðir með börnum og það var ansi öflug sía. Það voru þrír hundar sem komu til greina. Suzie Q valdi okkur áður en okkur tókst að skoða hina tvo. Hún er alveg dásamleg,“ útskýrir Manuela sem þekkir sögu Suzie lauslega. „Ég veit að hún er fjögurra ára chihuahua og var skilin eftir af eiganda sínum. Hún sýnir ekki merki þess að hafa verið beitt ofbeldi en hún var svolítið illa farin eftir að hafa verið á vergangi.“

 

Manuela segir Suzie smellapassa inn í fjölskylduna.
Passar vel upp á fjölskylduna

Að sögn Manuelu hefur Suzie gengið vel að aðlagast nýja heimilinu. „Þetta hefur gengið alveg ótrúlega vel og okkur finnst eiginlega bara eins og hún hafi alltaf verið okkar. Hún er rosalega hlýðin og góð og elskar okkur ofsalega mikið. Ég finn það svo greinilega, því hún passar mjög upp á okkur öll, þótt lítil sé.“

Það kom aldrei til greina að kaupa hund af ræktanda að sögn Manuelu. „Ég hef enga þörf fyrir að snobb­ast eitthvað og kaupa af ræktanda þegar ég get styrkt frábæra starfsemi og gefið munaðarlausum hundi gott heimili. Það kostar líka að ættleiða hundana en sú upphæð er framlag til samtakanna. Þetta hefur verið algjör „win-win“-staða því hún Suzie hefur gefið okkur svo rosalega mikla ást og gleði.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×