Lífið

Viktoría ástfangin á aðventu en ekki af Svölu heldur Sóla

Jakob Bjarnar skrifar
Ástin eins og hún birtist í Séð og heyrt er farin að minna á ævintýralegustu sápuóperu þar sem allt getur gerst. Ritstjórinn Ásta lætur sér hvergi bregða.
Ástin eins og hún birtist í Séð og heyrt er farin að minna á ævintýralegustu sápuóperu þar sem allt getur gerst. Ritstjórinn Ásta lætur sér hvergi bregða.
Á forsíðu nýjasta tölublaðs Séð og heyrt er fjallað um ást á aðventu. Samsett mynd er af þeim Viktoríu Hermannsdóttur fréttakonu og Svölu Ólafsdóttur sem er dósent við lagadeild í HR. „Viktoría Hermannsdóttir og Svala Ólafsdóttir hafa fundið hamingjuna: ÁST Á AÐVENTU“

Hefur aldrei hitt Svölu

Þegar blaðamaður óskaði Viktoríu til hamingju nú fyrir stundu var hún ekki eins sæl og þessi frétt gefur tilefni til að ætla. Reyndar bara alls ekki. Ertu þá ekkert ástfangin á aðventu?

„Ekki af Svölu. Við erum allavega ekki ástfangnar af hvor annarri. Ég held ég hafi aldrei hitt Svölu, en mögulega einhvern tímann tekið símaviðtal við hana,“ segir Viktoría sem veit ekki hvort hún á að hlæja eða gráta.

„Þessi villandi fyrirsögn kom mér því alveg í opna skjöldu þegar ég fékk senda mynd af þessari forsíðu í morgun. Það er greinilegt að Séð og heyrt þarf að teygja sig ansi langt til þess að selja blaðið þessa dagana.“

Fólk getur bara keypt blaðið og flett því

Við nánari athugun kemur í ljós að inni í blaðinu er fjallað um ástina á aðventunni og þar er greint frá því að Viktoría er í sambandi við Sóla Hólm útvarpsmann og Svala hefur fundið ástina í örmum Grétars Örvarssonar tónlistarmanns. Þar kemur reyndar fram að Sóli hafi beðið Viktoríu, en það mun á misskilningi byggt, samkvæmt heimildum Vísis.

Ef að er gáð kemur á daginn að Viktoría og Svala hafa ekki fundið hamingjuna saman heldur sitt í hvoru lagi.
Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir, ritstjóri Séð og heyrt lítur þetta allt öðrum augum. „Ef þú flettir blaðinu fer ekkert á milli mála um hvað þetta snýst. Það stendur hvergi framan á blaðinu að þær séu saman, sem þær eru sannarlega ekki. Ef fólk sér mynd af tveimur konum saman og talað er um ást, þá er það þeirra að túlka sem svo að þær séu saman. Fólk getur bara flett blaðinu. Ég ræð því ekki hvernig fólk les hlutina og túlkar. Það er algjörlega hvers og eins. Algjörlega augljóst... fólk verður bara að kaupa blaðið og komast að því hvers kyns er.“

Telur sig ekki vera að selja blaðið á fölskum forsendum

Aðspurð telur Ásta það af og frá að hún sé að selja blaðið með villandi hætti -- hún vill alls ekki kannast við einbeittan brotavilja í þá átt. „Það tel ég ekki vera. Ef ég hefði sagt að þær væru saman þá væri það svo.“

En, ertu ekki að gefa það í skyn að svona sé þetta í pottinn búið?

„Nei, það finnst mér ekki vera. Viktoría og Svala hafa fundið hamingjuna. Með hverjum? Það er ekki tekið fram. Ekkert þarna.“

Ásta Hrafnhildur segist hafa fengið fyrirspurnir vegna málsins en hún biður viðkomandi þá um að senda sér tölvupóst. Og kveður blaðamann Vísis með orðunum: „Þar til í næstu viku.“

Séð og heyrt er umdeilt tímarit en nýverið greindi Vísir frá gremju Kristins Hrafnssonar í garð Ástu en þá var það kynnt á forsíðu að Wikileaksmaðurinn væri orðinn einhleypur, nokkuð sem Kristinn kannaðist ekkert við.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×