Innlent

Hótaði að dreifa nektarmyndum, greiddi fargjaldið í strætó og nauðgaði fjórtán ára stúlku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ingvar Dór greiddi fargjaldið fyrir stúlkuna í strætó báðar leiðir.
Ingvar Dór greiddi fargjaldið fyrir stúlkuna í strætó báðar leiðir. vísir/ernir
31 árs gamall íslenskur karlmaður hefur verið dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir kynferðisbrot á heimili sínu á höfuðborgarsvæðinu árið 2014. Maðurinn, Ingvar Dór Birgisson, átti mikil samskipti við fjórtán ára stúlku á samfélagsmiðlum, fékk nektarmyndir af henni sendar og hótaði að birta þær á netinu ef hún kæmi ekki í heimsókn.

Fór svo að hann greiddi fargjaldið fyrir hana í strætó, leiðbeindi henni að heimili sínu þar sem hann nauðgaði henni. Dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur á miðvikudag en þetta er í annað skiptið á þremur árum sem maðurinn fær dóm fyrir að nauðga fjórtán ára stúlku. 

Eftir að dómur féll í fyrra málinu, eftir að hafa verið í kerfinu í á sjötta ár, flutti Vísir fréttir af því að Ingvar væri grunaður um annað kynferðisbrot. Aftur gegn fjórtán ára stúlku. Um er að ræða umrætt mál sem dómur féll í nú á miðvikudag.

Meðal sönnunargagna í málinu var millifærsla Ingvars til að greiða fargjaldið fyrir hana í strætó og ítarleg samskipti þeirra á milli á samfélagsmiðlum, fyrir og eftir atburðinn.

Bar fyrir sig minnisleysi

Ingvar neitaði alfarið sök en sagðist muna efir því að hafa verið í samskiptum við stúlkuna í gegnum Skype og síma. Hann hefði þó aðeins einu sinni hitta hana, stuttlega á strætisvagnastoppistöð. Hann sagðist aldrei hafa haft nokkur kynferðisleg samskipti við stúlkuna og neitaði að hafa beðið hana um að senda sér nektarmyndir.

Þá neitaði hann að hafa notast við notendanafnið Ingvar Winchester á Facebook. Að öðru leyti bar hann fyrir sig minnisleysi fyrir dómi um nánast allt, meðal annars innihald samatala hans við stúlkuna á Skype og sömuleiðis framburð sinn í fjórum skýrslutökum hjá lögreglu.

Maðurinn bauð stúlkunni á dvalarstað sinn í Kópavogi.Vísir/Vihlelm
Samskipti í langan tíma

Ingvar og stúlkan höfðu samskipti á Snapchat, Facebook en aðallega á Skype. Þá höfðu þau tæplega þúsund sinnum samskipti í síma. Dómurinn taldi sannað með vísun til rannsóknar lögreglu og vitnisburðar vinar Ingvars að hann hefði gengið undir notandanafninu Ingvar Winchester á Facebook og haft samskipti við stúlkuna undir því nafni.

Samskipti Ingvars við stúlkuna á Skype voru afrituð af lögreglu. Þau náðu yfir langt tímabil og voru svo til öll á kynferðislegum nótum. Af þeim mátti ráða að stúlkan sendi honum fjölda mynda af sér fáklæddri eða nakinni. Fullsannað væri að samskipti voru á milli þeirra eins og stúlkan bar um og framburður Ingvars um að hann myndi ekkert eftir samskiptunum ótrúverðugur. Ekki síst í ljósi þess að hann mundi vel eftir öðrum samtölum frá svipuðum tíma.

Báru samskipti þeirra glögglega með sér að fullorðinn maður væri að tala við reynslulitla unglingsstúlku eins og segir í dómnum.

„Hið kynferðislega tal er einhliða af hans hálfu og hann stýrir því alfarið. Hann þrýstir á brotaþola með vaxandi þunga og er tilgangurinn sá að sannfæra hana um að hún eigi að koma og eiga sín fyrstu kynferðismök með honum,“ segir í niðurstöðu dómsins.

Samskipti Ingvars og stúlkunnar voru mikil og yfir langan tíma.Vísir/Getty
Varð óánægður þegar stúlkan var smeyk

Fram kemur að stúlkan átti við erfiðleika að ræða, meðal annars námserfiðleika, samskipti við foreldra voru ekki sérstaklega góð og hún hafi upplifað athygli Ingvars á jákvæðan hátt í fyrstu en þó verið óörugg og nokkuð á varðbergi. Þegar hann varð ágengari og grófari hafi stúlkan farið undan í flæmingi en við það hafi ákærði látið óánægju sína í ljós.

Kom að því að hann benti henni ítrekað á að hann hefði nektarmyndirnar í fórum sér. Þær myndu ekki rata á netið svo framarlega sem hún hitti hann. Stúlkan sagði honum að henni liði illa en hann lofaði henni að þau yrðu áfram saman þótt þau hefðu samræði í fyrsta skiptið sem þau hittust. Þau hafi ákveðið að hittast og hún spurt hvað þau muni gera:

„setja eh kósý mynd á sem þú færð að velja, spjalla, kúra, kyssa og svo það gerist sem gerist,“ skrifaði Ingvar til stúlkunnar.

Stúlkan sagðist þá vilja það sama. Hann ítreki að finnist henni eitthvað óþægilegt lofi hann að stoppa. Hún biður hann þá um að gera ekki eitthvað sem hún vilji ekki. Hann svarar að hún verði að vera jákvæð, ef eitthvað gerist þá eigi hún að leyfa því að gerast en ekkert slæmt geti gerst.

Dómurinn taldi ljóst að Ingvar hefði nýtt aldursmun, reynslu og þroska til að ná markmiði sínu, að hafa kynferðismök við stúlkuna.vísir/getty
Ótrúverðugur framburður Ingvars

Dómurinn taldi fullsannað að stúlkan hefði komið á dvalarstað Ingvar umræddan dag árið 2014. Framburður hennar væri trúverðugur og í samræmi við önnur gögn. Símagögn styðja að hún hafi verið þar á umræddum tíma og sömuleiðis tímatafla strætisvagnanna sem hún tók báðar leiðir. Þá gat hún lýst vistarverum Ingvars með fulnægjandi hætti.

Þá eru Skype samskipti þeirra, bæði fyrir og eftir að þau hittust, í samræmi við framburð hennar að ákærði hafi haft samræði við hana og svo munnmök. Koma þessar fyrirætlanir Ingvars margítrekað fram í samskiptum þeirra. Þykir framburður stúlkunnar um kynferðismökin, eins og segir í dómnum, trúverðugur og var hann lagður til grundvallar dómnum.

Í ljós alls sem rakið er í dómnum taldi fjölskipaður Héraðsdómur Reykjavíkur framburð Ingvars afar ótrúverðugan og í hróplegu ósamræmi við gögn málsins. Þá taldi dómurinn ljóst að Ingvari var fullkunnugt um aldur stúlkunnar, hann hafi haft kennitölu hennar þegar hann greiddi fargjaldið hennar í strætó 

Ingvar sagðist hafa verið í vinaleit

Ingvar viðurkenndi fyrir dómi að hafa greitt strætisvagnafargjald fyrir stúlkuna. Dómurinn taldi skýringar hans um að hafa millifært á hana fargjaldið aðeins til að hitta hana í mýflugumynd ekki standast skoðun. Sömuleiðis útskýring hans um að samskipti þeirra hafi verið vegna þess að hann væri í vinaleit. 

„Ákærði mátti vita að það að vingast við unglingsstúlkur var fráleitt ekki síst í ljósi þess að á þessum tíma var fallinn dómur í héraði þar sem hann var sakfelldur fyrir að hafa brotið kynferðislega gegn 14 ára gamalli stúlku.“

Þeim dómi var áfrýjað til Hæstaréttar sem vísaði málinu aftur heim í hérað þar sem hann var aftur sakfelldur. Sú niðurstaða var staðfest í Hæstarétti fyrir ári. Vísir fjallaði ítarlega um málið og ræddi við fórnarlambið í málinu sem tók á sjötta ár í meðferð fyrir dómstólum.

Verjandi taldi kynferðismökin með vilja stúlkunnar

Verjandi Ingvars Dórs, Vihjálmur H. Vilhjálmsson, benti á að þótt dómurinn teldi sannað að kynferðismök hefðu átt sér stað hefðu þau verið með vilja stúlkunnar og vísaði í því sambandi til samskipta þeirra á Skype, en þau hefðu haldið áfram á jákvæðum nótum eftir „hina meintu nauðgun.“ Vísaði hann til ummæla stúlkunnar næsta dag þar sem fram kom að hún væri enn hrifnari af Ingvari, hvorki stressuð né feimin lengur.

Þessu hafnaði dómurinn alfarið og vísaði til efnisinnihalds Skype-samtals þeirra. Ingvar hefði gróflega misnotað aðstöðu sína og nýtt yfirburði í aldri, reynslu og þroska í því skyni að þrýsta á hana til að hafa við sig kynferðismök. Að hóta henni birtingu á nektarmyndum væri til merkis um styrk ásetnings til að ná markmiðinu.

Dómurinn taldi sannað að Ingvar beitti stúlkuna bæði hótun og ólögmætri nauðung til þess að hafa við hana samræði og kynferðismök umrætt sinn. Engu breyti samskipti þeirra á eftir. Nokkur tími leið þar til stúlkan áttaði sig á því, eftir samtöl við vinkonur, að henni hefði verið nauðgað.

Eyddi ekki myndunum

„Til þess ber að líta að ákærði hafði nektarmyndir af henni enn í sínum fórum og hafði ekki eytt þeim eins og hann hafði lofað henni. Hafði hann því enn tangarhald á henni og verður að meta samskiptin í því ljósi. Við slíkar aðstæður eru orðin tóm að halda því fram að vilji brotaþola hafi verið frjáls.“

Hins vegar taldi dómurinn ósannað að Ingvar hefði neytt aflsmunar með ofbeldi. Framburður stúlkunnar um þetta fengi ekki fullnægjandi stoð í framburði vitna sem hún talaði við fyrst eftir atburðinn eða í öðrum gögnum málsins. Var hann sýknaður af þeim hluta ákærunnar.

Var Ingvar Dór sem fyrr segir dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi og til að greiða stúlkunni 1,2 milljónir króna í miskabætur.

Dóminn í heild má lesa hér,




Fleiri fréttir

Sjá meira


×