Lífið

Steldu stílnum: Apabindi forseta falt fyrir 32 þúsund krónur eða meira

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Forsetinn með apabindið.
Forsetinn með apabindið. Vísir/GVA
Áhugasamir aðilar um bindistísku Guðna Th. Jóhanessonar geta nú stolið stílnum hans með því að fjárfesta í frægu apabindi hans. Dropinn, styrktarfélag barna með sykursýki, býður nú bindið upp.

Uppboðið er í fjáröflunarskyni þar sem félagið safnar fyrir árlegum sumarbúðum barna og unglinga með sykursýki. Guðni Th. gaf Dropanum apabindið sitt fræga og sokka í kauppbæti en þeir fylgja einnig með.

Hægt er að bjóða í bindið og sokkaparið á Ebay og er hæsta boð nú 285 dollarar og þarf því 290 dollara boð til þess að verða hæstbjóðandi líkt og staðan er núna, rétt rúmlega 32 þúsund krónur.

Apabindi Guðna Th. vakti mikla athygli í sumar þegar hann bar það við fyrstu opinberu heimsókn sína sem forseti Íslands þegar hann heimsótti Sólheima.

Bindistíska Guðna Th. ratar reyndar reglulega í fréttirnar en fyrr í dag ræddi Vísir við tískusérfræðing vegna bindissíddar Guðna Th. sem þótti vera helst til of löng.

Bindið er þó ekki það eina sem boðið er upp til styrktar Dropans en þar má einnig finna félagsliðatreyjur Viðars Arnars Kjartanssonar hjá Maccabi Tel Aviv og Jóns Daða Böðvarssonar hjá Wolves. Einnig verður landsliðstreyja íslenska karlalandsliðsins í fótbolta á uppboði, árituð af öllum landsliðsmönnum.

Nánari upplýsingar um uppboðið má finna hér.


Tengdar fréttir

Apabindi forseta Íslands tekur við af fílabindinu

Apabindið sem Guðni Th. Jóhannesson bar við fyrstu opinberu heimsókn sína sem forseti Íslands vakti skemmtilega athygli. Fréttablaðið heyrði í forsetahjónunum og grennslaðist fyrir um apabindið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×