Lífið

Ætlar á háum hælum upp Esjuna

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Hjálmar Forni, fyrir framan nokkra búninga og skó sem hann hefur tekið til fyrir stóra daginn.
Hjálmar Forni, fyrir framan nokkra búninga og skó sem hann hefur tekið til fyrir stóra daginn. vísir/ernir
Hjálmar Forni Sveinbjörnsson ætlar að láta draum sinn rætast með því að fara upp á Esjuna í dragi og á háum hælum.

Hann er vanur göngumaður, alinn upp á Ísafirði og vann lengi á Hornströndum. Hann er einnig vanur dragi sem Miss Gloria Hole. Tilgangur göngunnar er að vekja athygli og hefja umræður í samfélaginu um HIV-sjúkdóminn, mikilvægi þess að vera ábyrgur í sínu kynlífi og einnig að styrkja HIV-samtökin hér á landi.

„Til að vekja athygli á þessu verkefni ákvað ég að láta slag standa og fara upp Esjuna í dragi sem ég hef ætlað að gera í langan tíma. Mér fannst þetta kjörið tækifæri,“ segir Hjálmar.

Hann segir að það skorti meiri fræðslu til að upplýsa fólk og eyða fordómum og hræðslu gagnvart smituðum einstaklingum. „Ég bjó með manni sem var HIV-smitaður og þá áttaði ég mig á því að fordómar og fáfræði er mikil í samfélaginu okkar.

Fólk hafði áhyggjur af því að nota sömu hnífapör og annað slíkt sem hann var að nota. Mér finnst vanta upp á fræðslu og þess vegna ákvað ég að hella mér út í þetta,“ segir hann. 

Samtökin eru að vinna að því að koma af stað smokkaherferð í samstarfi við Durex á Íslandi þar sem frægir einstaklingar koma og búa til eitthvað flott úr smokkum eins og hatta, föt og fleira.

Hjálmar ætlar að byrja á að fara upp að Steini en það fer eftir veðri og vindum hvort hann heldur áfram upp á topp Esjunnar. „Ég er búinn að sjá margar útfærslur af veðurspánni þannig að ég læt þetta ráðast þegar þar að kemur. Það eru allir velkomnir með í þessa göngu og ef vel viðrar þá ætla ég að skella í smá „show“ þarna uppi.

Ég þarf að skipta um skó nokkrum sinnum á leiðinni til að hvíla fæturna en ég verð alltaf í hælaskóm. Það mun ekkert breytast. Stígurinn upp Esju er nánast malbikaður þannig að ég hef engar áhyggjur af þessu. Ég vann lengi á Hornströndum og þar eru engir göngustígar eða eitthvað álíka notalegt. Þetta verður lítið mál. Ég fékk líka svo góða skó frá Siggu Kling.“

Þeim sem styrkja verkefnið verður sérstaklega boðið á lokahóf verkefnisins í Hörpunni 1. desember sem er alþjóðlegi dagur HIV. Þar munu koma fram skemmtikraftar og lofar Hjálmar miklu stuði. Einnig munu nöfn þeirra koma fram í þakkarlista í heimildarmyndinni sem stefnt er á að gera um gönguna. 

Styrktarreikningur:

0156-05-064764

kt. 280394-2549






Fleiri fréttir

Sjá meira


×