Lífið

Opna nýja fæðingarstofu

Lilja Björk Hauksdóttir skrifar
GVA
Ljósmæðurnar Hrafnhildur Halldórsdóttir og Arney Þórarinsdóttir segja starfið vera lífsstíl, það sé bæði gefandi og krefjandi. Þær eru drifnar áfram af ástríðu fyrir ljósmæðrastarfinu og fengu fyrir og fengu fyrir nokkrum dögum starfsleyfi til að reka fæðingarstofu en þær hafa unnið lengi að því að geta boðið verðandi foreldrum upp á fleiri valkosti í barneignarþjónustu hér á landi. Hrafnhildur og Arney eru auk þess að vera samstarfskonur vinkonur sem eiga furðumargt sameiginlegt.

Þær Arney Þórarinsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir, ljósmæður hjá Björkinni, taka vel á móti blaðamanni á notalegri fæðingarstofu sinni í Síðumúla. Þær hyggjast taka á móti fyrsta barninu þar í janúar þegar áætlað er að fæðingarstofan verði opnuð en fyrir viku fengu þær starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur til að reka stofuna. „Við erum að vinna í að senda inn tilkynningu til landlæknis og skilum henni inn á næstu dögum. Þegar hafinn er rekstur í heilbrigðisþjónustu þarf að skila inn tilkynningu um það og uppfylla lágmarkskröfur, við erum búnar að fara vel yfir þær kröfur og því ætti það að ganga vel fyrir sig,“ útskýrir Arney.

Hrafnhildur og Arney hafa tekið á móti börnum á heimilum þeirra undanfarin sex ár. Þær segja það mikilvægt fyrir konur að geta valið fæðingarstað sem uppfyllir þarfir þeirra, misjafnt sé hvað konur þurfa. MYND/ALDÍS PÁLSDÓTTIRAldís Pálsdóttir
Draumur flestra ljósmæðra

Þær Hrafnhildur og Arney hafa undanfarin sex ár sinnt heimafæðingum og samfelldri þjónustu við fjölskyldur þar sem þær fylgja þeim í gegnum meðgöngu, fæðingu og sængurlegu. Þar sem fæðingarstöðum á landinu hefur verið að fækka undanfarin ár, en nú síðast voru Hreiðrið og fæðingar­gangur á Landspítala sameinuð í eina stóra fæðingardeild fyrir allar konur, fannst þeim Hrafnhildi og Arneyju vanta fleiri valkosti. „Núna er bara heimafæðing eða fæðingarvaktin á Landspítala í boði. Við fundum fyrir því að það vantaði þetta millistig,“ segir Hrafnhildur.

Arney bætir við að þær hafi sinnt foreldrum sem búa utan höfuðborgarsvæðisins og hafa leigt íbúðir eða verið heima hjá ættingjum en svo hafi sumir þeirra ekki haft neina aðstöðu þannig að þær hafi ekki getað sinnt þeim. „Það ýtti okkur svolítið út í að opna þessa fæðingarstofu en okkur og mörgum öðrum þótti hana vanta. Við styðjumst við breskar leiðbeiningar í barneignaþjónustu sem kallast NICE og eru unnar af fæðingarlæknum og ljósmæðrum. Þar er mælt með að hraustar konur í eðlilegri meðgöngu, og sérstaklega þær sem hafa fætt áður, fæði utan spítala, annaðhvort á fæðingarheimili eða á heimili sínu.“

„Það er draumur flestra ljósmæðra að það sé til fæðingarheimili þar sem hægt er að veita persónulega þjónustu. Það hefur verið grínast með það að hvert einasta ljósmæðraholl sem útskrifast ætli að opna fæðingarheimili og það hefur nokkrum sinnum verið farið af stað með það en við erum þær sem hafa komist lengst í því,“ segir Hrafnhildur.

„Fæðing er mikill fjölskylduviðburður og það er skemmtilegt hvað við kynnumst fólkinu vel. Þetta verður meira en bara samband skjólstæðings og heilbrigðisstarfsmanns, við erum að koma inn á heimili fólks og kynnumst börnum þess og jafnvel öfum og ömmum,“ segir Hrafnhildur.
Allt er fertugum fært

Arney og Hrafnhildur hafa nokkrum sinnum áður farið af stað með hugmyndina um fæðingarheimili en hún hefur ekki náð eins langt og nú. Þær segja að eitt af því sem ýtti við þeim að fara alla leið núna var að þær urðu báðar fertugar í fyrra. „Í staðinn fyrir að fá móral yfir því að vera orðnar fjörutíu ára ákváðum við að nota það sem tækifæri til að hætta að ganga með drauminn í maganum og láta hann rætast,“ segir Hrafnhildur og brosir.­ Arney tekur í sama streng og segir að þær hafi hætt að spyrja að því hvort þær mættu gera þetta og bara gert það. „Það eru lög og reglur og maður fer í gegnum þær og uppfyllir skilyrðin og eftir það er spurningin „má ég?“ ekki lengur til staðar.“

Þær segja það mikilvægt fyrir konu að geta valið fæðingarstað sem uppfyllir þarfir hennar, misjafnt sé hvað konur þurfa. „Fyrir sumar er þetta ekki val, fyrir þær sem eru með einhverja áhættuþætti er best að fæða á sjúkrahúsi. Þær sem hafa valið ættu að hafa valkosti. Okkur langar að geta boðið stærri hópi þessa samfelldu þjónustu á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu. Það var svoleiðis kerfi inni á spítalanum sem kallaðist MFS sem okkur þykir synd að hafi verið lagt niður.“

Arney segir rannsóknir hafa sýnt að samfelld þjónusta hafi jákvæð áhrif á gang fæðingar og dragi úr þörf á verkjalyfjum og geti jafnvel stytt fæðingu og því sé hún ótrúlega mikilvæg.

„Það má heldur ekki gleyma hvað fæðing er ótrúlega persónulegur atburður og það skiptir svo miklu máli að konan hafi einhvern með sér sem hún treystir þannig að hún geti verið hún sjálf og haft þetta eins og hún vill,“ útskýrir Hrafnhildur.

Þegar þær hófu fjármögnun á fæðingarstofunni í gegnum Karolina Fund fengu þær mikil og góð viðbrögð sem komu skemmtilega á óvart. Bæði fólk og fyrirtæki hafa stutt þær og segir Arney að meðal annars hafi Búseti, sem á húsið sem fæðingarstofan er í, reynst þeim vel. „Þau gáfu okkur leyfi til að breyta húsnæðinu í fæðingarstofu og eins hafa þau verið okkur innan handar með margt, á efri hæðinni bíður fólk líka spennt eftir fyrstu fæðingunni.“

„Við fundum að þetta er eitthvað sem konur vilja en ekki bara eitthvað sem við og aðrar ljósmæður höldum að þær vilji. Við höfum fengið þakkir frá alls konar konum á öllum aldri,“ segir Hrafnhildur.

Heimafæðingar vegna kreppu

Þær stöllur útskrifuðust sem ljósmæður árið 2009 og stofnuðu Björkina fljótlega eftir það til að halda utan um heimafæðingar og námskeið fyrir verðandi foreldra. Námskeiðin halda þær enn í samstarfi við Lygnu fjölskyldumiðstöð og starfsfólk hennar og eru þau sex talsins, fæðingarundirbúningur, nudd og slökun í fæðingu, parasambandið, tungumál barnsins, brjóstagjöf og svefn ungbarna.

Arney segir að þær Hrafnhildi hafi báðar langað að starfa við heimafæðingar en það hafi ekki endilega verið planið að gera það strax eftir útskrift. „Þegar við útskrifuðumst var nýskollin á kreppa og ráðningarbann í gildi á spítalanum. Við vorum fullar af eldmóði og langaði að gera sem mest og það þróaðist þannig að við vorum komnar á fullt í heimafæðingum.“

Þær hafa sjálfar reynslu af heimafæðingu en yngstu börn þeirra beggja eru fædd heima og tók Áslaug Hauksdóttir ljósmóðir á móti þeim báðum. „Þegar við Arney byrjuðum í ljósmæðranáminu vorum við báðar ákveðnar í því að verða heimafæðingarljósmæður, því við höfðum sjálfar svo góða reynslu af því að vera með sömu ljósmóðurina í öllu ferlinu, meðgöngu, fæðingu og sængur­legu,“ lýsir Hrafnhildur. Arney nefnir að þær hafi svo fengið að aðstoða Áslaugu þegar þær voru að byrja í heimafæðingum sjálfar en Áslaug hefur verið frumkvöðull í heimafæðingum hér á landi. „Áslaug hefur alltaf verið okkur mikill mentor og vinkona. Einnig reyndist Kristbjörg Magnúsdóttir heimafæðingaljósmóðir okkur vel og veitti okkur mikinn stuðning þegar við vorum að byrja í heimafæðingunum.“

„Þótt ég hafi margoft séð barn koma í heiminn þá finnst mér alltaf jafn magnað að sjá það. Þetta er ótrúlega gefandi starf og við fáum jákvæð viðbrögð sem segir okkur að þetta skiptir máli,“ segir Arney.
Ótrúleg tengsl

Hrafnhildur og Arney hafa verið vinkonur síðan þær voru að læra hjúkrun en þó Hrafnhildur hafi alist upp á Hornafirði og Arney í Kópavoginum er ótrúlega margt sem þær eiga sameiginlegt. „Við útskrifuðumst saman árið 2001, kynntumst í miðju náminu og komumst fljótlega að því að okkur langaði báðar að verða ljósmæður. Við fórum svo að vinna saman á hjartadeildinni eftir útskrift og vorum þar í sex ár. Á því tímabili eignuðumst við báðar tvö börn en við eigum þrjú hvor. Við kynntumst mönnunum okkar með mánaðar millibili fyrir rúmum 23 árum og giftumst þeim líka með mánaðar millibili fyrir fimmtán árum, sem var fyndin tilviljun. Báðar áttum við einn strák áður en við kynntumst og eignuðumst svo báðar dætur, með sex vikna millibili og síðan yngri strákana okkar árið 2006. Þeir voru báðir fæddir heima og fæddust með þriggja vikna millibili,“ segir Hrafnhildur og hlær.

En þar með er upptalningunni ekki lokið. „Við komumst að því eftir að við kynntumst að mæður okkar voru saman í Hjúkrunarskólanum og voru óléttar að okkur á sama tíma því það er mánuður á milli okkar. Þannig að við vitum ekki alveg hvenær þetta byrjaði.“ Arney bætir brosandi við að svo hafi tengdamæður þeirra verið saman í Húsmæðraskólanum. „Auk alls þessa keyrði afi Hrafnhildar sem var leigubílstjóri alltaf afa minn sem tók aldrei bílpróf,“ segir hún og þær hlæja báðar dátt.

Enginn æskudraumur

Þær eiga það líka sameiginlegt að hafa ákveðið í æsku að ætla ekki að verða hjúkrunarfræðingar eins og mæður þeirra þrátt fyrir að hafa fetað þá braut síðar í lífinu. Hrafnhildur var ung þegar hún ákvað að verða ljósmóðir. „Ég var átján ára þegar ég varð ólétt að fyrsta barninu mínu og þá átti ég heima úti á landi. Það var ein ljósmóðir í bænum og þar kynntist ég því að hafa sömu ljósmóðurina í öllu ferlinu. Mér fannst þetta spennandi en jafnframt að það mætti hugsa betur um ungar mæður. Mig langaði að verða ljósmóðir sem myndi hugsa sérstaklega vel um ungar mæður. Ég ákvað því að fara í hjúkrun til þess að verða ljósmóðir en það ætlaði ég aldrei að gera þar sem mamma mín er hjúkrunarfræðingur og mér fannst hún vera svolítið mikið í vinnunni,“ segir hún kímin á svip.

Arney vissi ekki hvað hún vildi gera eftir stúdentspróf og fór því að vinna. „Ég fékk vinnu á fæð­ingar­deildinni við að þrífa og gefa konunum að borða. Þá vissi ég bara að ég ætlaði ekki að verða hjúkrunarfræðingur. Ég fékk svo að vera viðstödd fæðingar og þegar ég sá fyrstu fæðinguna var ég búin að ákveða að þetta væri það sem ég ætlaði að gera, það varð ekki aftur snúið.“

Þær eru sammála um að ljósmóðurstarfið sé afskaplega gefandi en um leið krefjandi. „Þetta er bæði lífsstíll og ástríða,“ segir Hrafnhildur. „Þótt ég hafi margoft séð barn koma í heiminn þá finnst mér alltaf jafn magnað að sjá það. Þetta er ótrúlega gefandi starf og við fáum jákvæð viðbrögð sem segir okkur að þetta skiptir máli,“ bætir Arney við.

Hrafnhildur og Arney ákváðu að hætta að ganga með drauminn í maganum og láta hann rætast og opna fæðingarstofu.
270 fjölskyldum sinnt

Blaðamaður verður vitni að þessum jákvæðu viðbrögðum því meðan á viðtalinu stendur kemur ánægð amma barns sem þær tóku á móti færandi hendi og gefur þeim bók sem þakklætisvott. Ljósmæðurnar eru spurðar hvort þær fái oft svona heimsóknir. „Já, foreldrar koma stundum og heimsækja okkur. Fæðing er mikill fjölskylduviðburður og það er skemmtilegt hvað við kynnumst fólkinu vel. Þetta verður meira en bara samband skjólstæðings og heilbrigðisstarfsmanns, við erum að koma inn á heimili fólks og kynnumst börnum þess og jafnvel öfum og ömmum,“ segir Hrafnhildur.

Arney segir að þær hafi sinnt um 270 fjölskyldum frá því þær byrjuðu og þær muni eftir öllu þessu fólki. „Við höfum tekið á móti hjá systrum og vinkonum og hjá sömu fjölskyldunni oftar en einu sinni, þannig að þetta verður allt annað samband og ótrúlega gefandi.“

Arney og Hrafnhildur eru sammála um að þær konur sem velja heimafæðingu séu fjölbreyttur hópur sem eigi það sameiginlegt að hafa kynnt sér sína kosti vel, skoðað mikið og lesið sér til og tekið upplýsta ákvörðun. „Þær vita allar nákvæmlega hvað þær vilja en það eru alls konar konur sem velja heimafæðingar og vonandi verður það líka þannig með þær sem koma til okkar,“ lýsir Hrafnhildur. Arney segir að það sé kannski það skemmtilegasta við vinnuna þeirra, að þær kynnist alls konar fólki sem þær myndu annars ekki kynnast.

Eins og áður segir stefna ljósmæðurnar tvær að því að opna fæðingarstofuna í janúar en þær ætla að taka því rólega fram að því. „Við ætlum að eiga rólegan desember í fyrsta sinn í nokkur ár og erum búnar að lofa fjölskyldum okkar að vera í fríi yfir jólin en byrjum svo af krafti á nýju ári,“ segja þessar samhentu samstarfskonur og vinkonur brosandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×