Lífið

Útvarp Akraness í loftinu

Gunnþóra Gunnardóttir skrifar
Gestir í hljóðstofu, Rannveig L. Benediktsdóttir, Guðmundur Valsson, Hrefna Rún Ákadóttir, Andrés Ólafsson, Hjördís Hjartardóttir, Guðrún Guðbjarnadóttir og Trausti Gylfason.
Gestir í hljóðstofu, Rannveig L. Benediktsdóttir, Guðmundur Valsson, Hrefna Rún Ákadóttir, Andrés Ólafsson, Hjördís Hjartardóttir, Guðrún Guðbjarnadóttir og Trausti Gylfason.
Þetta er í 28. skiptið sem sent er frá Útvarpi Akraness og það er orðið fastur punktur í menningarlífi Skagamanna fyrstu helgina í aðventu,“ segir Trausti Gylfason, öryggisstjóri Norðuráls á Grundartanga.

Trausti er formaður Sundfélags Akraness sem stendur að útvarpsdagskránni nú sem endranær.

 „Útvarpið er ein helsta tekjulind Sundfélagsins og ég viðurkenni að í byrjun horfði ég einkum til þess en eftir því sem árin líða átta ég mig betur á gildi dagskrárinnar,“ segir hann. „Við fáum fólk hér úr bænum til að sinna dagskránni og gengur oftast vel að manna útsendingar með þáttum sem snúa að Akranesi og nágrenni.“

Trausti segir Sundfélagið svo heppið að tveir dagskrár- og tæknimenn á RÚV séu Skagamenn, þeir Óli Palli og Óli Valur Þrastarson. „Þeir nafnarnir stýra þessu batteríi og allt sem unnið er í kringum þetta er gert í sjálfboðavinnu.“

Stúdíóið er í Miðstöð símenntunar sem er í hjarta bæjarins. Þaðan er útsýni yfir torgið þar sem kveikt verður á jólatré um helgina.

Meðal dagskrárliða á morgun er þáttur í höndum Gísla Gíslasonar og Hallberu Jóhannesdóttur til heiðurs Íþróttabandalagi Akraness, ÍA, sem er 70 ára í ár.

Krakkarnir í 5. bekk í grunnskólanum á Akranesi eru með fasta þætti bæði nú í morgunsárið og í fyrramálið. „Þar erum við að búa okkur til framtíðarhlustendur og þáttagerðarfólk,“ segir Trausti og bætir við.

 „Ég tel það skyldu okkar í íþróttahreyfingunni að skila til baka til bæjarfélagsins einhverju sem allir íbúar geta notið. Þannig er það með útvarpið. Það er fylgst með dagskrá þess á öllum heimilum hér og í öllum fyrirtækjum.“

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. nóvember 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×