Lífið

Saga hljómsveitarinnar sem verður líklegast alltaf þekktari fyrir myndböndin en tónlistina

Birgir Olgeirsson skrifar
Hér má sjá brot úr þekktustu myndböndum OK Go.
Hér má sjá brot úr þekktustu myndböndum OK Go.
Það er ekki annað hægt en að dást að nýjasta myndbandi bandarísku hljómsveitarinnar OK Go við lagið The One Moment.

Um er að ræða augnablik sem varir í 4,2 sekúndur sem er fangað með fullkomnum upptökuvélum sem ná óheyrilega mörgum römmum á einni sekúndu og því var hægt að hægja á umræddu augnabliki og sjá það frá mörgum sjónarhornum þannig að úr verður fjögurra mínútna myndband.

Tónlistarmyndbönd sveitarinnar hafa jafnan vakið mun meiri athygli heldur en tónlistin sjálf og því bandið nokkuð merkilegt fyrir þær sakir.

OK Go á MTV-tónlistarverðlaununum árið 2006.Vísir/Getty
Við skulum renna stuttlega yfir sögu þessarar sveitar og sjá hvernig tónlistarmyndbönd hennar hafa þróast í gegnum árin og vaxið gífurlega í umfangi.

Meðlimir sveitarinnar eru allir frá Chicago en búa nú í Los Angeles. Um er að ræða Damian Kulash aðalsöngvara og gítarleikara, Tim Nordwind bassaleikara og bakraddasöngvara, Dan Konopka trommuleikara og Andy Ross sem spilar á gítar og hljómborð ásamt því að syngja bakraddir.

A Million Ways

Sveitin var stofnuð árið 1998 en en tvær fyrstu plöturnar náðu ekki beint gríðarlegri útbreiðslu. Það var meðlimir sveitarinnar gáfu út myndband við lagið A Million Ways árið 2005 sem hlutirnir fóru að gerast.

Myndbandið var hrátt og einfalt þegar kom að tæknilegri úrvinnslu, einni stafrænni myndavél var stillt upp á þrífót í bakgarði og stilltu fjórmenningarnir sér upp fyrir framan hana. Tónlistin byrjar og þá stíga þeir samhæfðan dans, sem systir Kulash, Trish Sie, hafði samið, sem var svo margslunginn og dáleiðandi að netverjar heilluðust með. Allt var þetta gert í einni töku.

Here It Goes Again

Lagið var að finna á plötunni Oh No! en sú plata inniheldur einnig lagið Here It Goes Again en það var í raun myndbandið við það lag sem innsiglaði heimsfrægð sveitarinnar. Þar stígur sveitin aftur samhæfðan dans en í þetta skiptið á hlaupabrettum en aftur, allt í einni töku. Höfundur dansins er aftur Trish Sie en meðlimirnir þurftu að æfa hann í þaula og þurfti heilar sautján tökur til að ná honum fullkomnum. Líkt og í A Million Ways-myndbandinu er það bassaleikarinn Tim Nordwind sem mæmar lagið í þessu myndbandi en ekki söngvarinn Damain Kulash.

Myndbandið var frumsýnt á myndbandavefnum YouTube í júlí árið 2006 og náði gífurlegum vinsældum og hlaut sveitin Grammy-verðlaun fyrir myndbandið árið 2007 sem og YouTube-verðlaunin fyrir hugmyndaríkasta myndbandið.

This Too Shall Pass

Þriðja myndbandið sem vakti aftur gríðarlega athygli var við lagið This Too Shall Pass sem kom út árið 2010 en þar var notast við Rube Goldberg-vél. Rube Goldberg var bandarískur teiknari sem var hvað þekktastur fyrir að teikna skýringarmyndir af afar flóknum og óhagkvæmum vélum sem gerðu lítið sem ekkert, og því apparöt eins og notast er við í þessu OK Go-myndbandi kennt við hann.

Þeir hafa notast við þjálfaða hunda.

Gert myndband með leiserskornu brauði.

Needing/Getting

Og svo auðvitað myndbandið við Needing/Getting sem kom út árið 2012. Þar sjást meðlimir sveitarinnar í Chevrolet Sonic sem er ekið í gegnum sérútbúna kappakstursbraut. Örmum og öðrum útlimum hafði verið komið fyrir á bílnum sem rákust í hljóðfæri sem hafði verið komið fyrir á brautinni þannig að úr varð hljóðfæraleikur sem þeir sungu við, þar á meðal röð píanóa, gítara, krukkna og tromma.

Upside Down & Inside Out

Í febrúar síðastliðnum sendi sveitin frá sér myndband við lagið Upside Down & Inside Out. Þar eru fjórmenningarnir staddir í þyngdarleysi þar sem þeir framkvæma hreyfingar sem annars væru ómögulegar við eðlilegar aðstæður. Var myndbandið skotið í flugvél sem náði að mynda þyngdarleysi með parabólísku-flugi, eða í raun að fljúga vélinni í nokkuð mikla hæð og demba henni síðan beint niður aftur.

Söngvari sveitarinnar, Damian Kulash, hafði gengið með þá hugmynd lengi að gera myndband í þyngdarleysi en hann og systir hans, Trish Sie, höfðu bæði fengið að fara í flugvél bandarísku geimferðarstofnunarinnar, Vomit Comet, í nóvember árið 2012 en þess má til gamans geta að mörg þyngdarleysisatriðin í í Apollo 13 voru tekin upp í henni, þar sem fljúga þurfti með leikara myndarinnar í ákveðna hæð og demba vélinni svo beint aftur niður. Þyngdarleysið varði í 30 sekúndur og voru atriðin tekin upp á meðan dýfunni stóð, og svo flogið aftur upp til að ná hæð og endurtaka síðan ferlið.

Líkt og gefur að skilja er þetta ekki fyrir venjulega menn að framkvæma, bæði hvað varðar líkamlega getu og kostnað. OK Go til mikillar gleði ákvað rússneska flugvélið S7 Airlines að styrkja gerð myndbandsins og lána þeim flugvél til verksins. Myndbandið var einnig styrkt af sjónvarpsþættinum Good Morning America, Facebook og Instagram.

Undirbúningurinn tók síðan nokkra mánuði en þrjár vikur voru notaðar í æfingar og tökur. Fyrsta vikan var notuð til að venjast flugferli vélarinnar og prófa hvað væri hægt að gera í þyngdarleysinu. Þeir vildu hins vegar gera þetta allt í einni töku, en þyngdarleysið við þessar aðstæður varir ekki lengur en um 30 sekúndur og átti myndbandið var vera þriggja mínútna langt. Þegar ekki var þyngdarleysi var notast við frumlegar aðferðir til að draga athygli frá því en í myndbandinu má sjá átta skipti þar sem þyngdarleysi er náð. Þetta reyndi mikið á mannskapinn og leið til að mynda yfir Damian Kulash í eitt skipti.

En eins og fyrr segir er bandið mun þekktara fyrir tónlistarmyndbönd en tónlistina sjálfa og gera fjórmenningarnir sér alveg grein fyrir því. Damian Kulash sagði til að mynda við tímaritið Rolling Stone árið 2014 að eftir Here It Goes Again-myndbandið gat OK Go valið um tvær leiðir til að reyna að sýna fram á að sveitin væri meira en bara sniðug tónlistarmyndbönd:

„Við gátum reynt að vera of svalir fyrir þetta, reynt að hunsa þetta eins og Radiohead gerði með Creep, eða bara taka þessu fagnandi og hugsa: Hvað var það sem virkaði fyrir okkur?“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×