Lífið

Fengu Jón í hljómsveitina því hann er edrú og á jeppa

Jakob Bjarnar skrifar
Súperstjörnurnar og Jón sem ætlar að nýta tækifærið og baða sig í frægð félaga sinna og tromma sem mest hann má.
Súperstjörnurnar og Jón sem ætlar að nýta tækifærið og baða sig í frægð félaga sinna og tromma sem mest hann má.
Gosar eru ný súpergrúbba þar sem hver stórstjarnan treðst um aðra þvera: Valdimar, Snorri Helgason, Teitur Magnússon, Örn Eldjárn og svo, ef skyggnst er bak við trommusettið þá má þar sjá þar Jón Mýrdal. Sem óneitanlega stingur nokkuð í stúf. Vísir gat ekki stillt sig um að forvitnast um hvernig liggur í þessu.

„Ég trommaði síðast fyrir svona 20 árum. Ég kann alveg að tromma, sko,“ útskýrir Jón fyrir blaðamanni Vísis. „Það var Iron Maden og Ozzy og eitthvað svoleiðis. Ég tók þátt í músíktilraunum með hljómsveitinni Við erum menn á sínum tíma. Svo hef ég nú bara verið í dvala.“

Fengu Jón í hljómsveitina því hann er edrú og á jeppa

Já, dvala sem trommari en það er ekki svo að hann hafi látið lítið fyrir sér fara. Jón hefur undanfarin ár látið að sér kveða í veitingabransanum og vakið athygli sem vert. Hann stýrir Bravó – knæpu við Laugaveg, skemmtistaðnum og tónleikastaðnum Húrra við Tryggvagötu og svo er það Messinn, veitingastaður við Lækjargötu, sem hefur slegið rækilega í gegn.

Sannkallaðir Gosar. Þeir fundu besta trommara í heimi sem bókstaflega ber þá á höndum sér.Þórsteinn Sigurðsson
Hvað vilja þeir þessir frægu og mikilsmetnu popparar vilja hafa með þig að gera í þessu samhengi?

„Mig grunaði nú fljótt, þegar þeir komu að máli við mig, að þetta gæti verið út af því að ég á góðan jeppa.“

Ha?

„Já, og svo er ég edrú. Draslið kemst einhvern veginn þægilega fyrir í bílnum, og ég keyri alltaf og ég held að það sé meginástæðan.“

Drekka frítt á börum Jóns

Og, hljómsveitarmeðlimir eru þá væntanlega að drekka frítt á þínum börum?

„Þegar lagt var upp var þetta hugsað þannig að við ætluðum ekki að spila í Reykjavík. Við ætlum að sigra landsbyggðina fyrst. Og við höfum ekki verið bókaðir neitt á Húrra.“

En, hæg eru heimatökin. Snorri Helgason starfar fyrir Jón, við að bóka hljómsveitir á Húrra og ef vill verður hægur leikurinn að koma Gosum að þar.

„En, jájá. Ég átta mig náttúrlega á því að ég er fýsilegur kostur útaf þessari bartengingu. Auðvelt að halda hljómsveitarfundi. Það er verið að plana og þeir fundir fara fram á þessum börum.“

Þeir vilja detta í belginn á poppurunum bjórarnir, einn til þrír af börum Jóns.visir/daníel
Jón hlýtur að teljast heppilegasti einhver sá allra heppilegasti fyrir fátæka poppara að hafa með sér í hljómsveit. Það liggur algerlega ljóst fyrir.

Ætlar að baða sig í frægð félaga sinna

Og, þá dettur nú kannski einn bjór og annar til í belginn á þessum tónlistarmönnum?

„Já, heldur betur. Og ein og ein panna af steinbít hefur runnið ljúft ofan í þá.“

En, fyrir þig sem trymbil, elur þetta ekki á óöryggi ef forsendurnar virðast vera þessar – að þú fáir að vera með af því að þú átt boltann?

„Jú. Ég byrjaði mjög varlega. Spilaði lítið á trommusettið. Fyrstu þrjú giggin. En ég er farinn að færast í aukana. Og ég er búinn að tilkynna þeim það að mér hafi fundist þetta einkennilegt í fyrstu, þegar þeir komu að máli við mig og ég fenginn í hljómsveitina. En ég ætla bara að nýta mér það og ríða þá öldu að baða mig í frægð þeirra.“

Fyrir þá sem vilja berja Gosa augum þá munu þeir troða upp annað kvöld, í Landnámssetrinu á Borgarnesi. Þar er Jón á heimavelli því hann á ætt og uppruna að rekja þangað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×