Lífið

Ítölsk hótel bjóða fría gistingu gegn getnaði

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Fæðingartíðni á Ítalíu hefur ekki verið jafnlág síðan á nítjándu öld.
Fæðingartíðni á Ítalíu hefur ekki verið jafnlág síðan á nítjándu öld. mynd/getty
Tíu hótel í bænum Assisi á Ítalíu hafa boðið pörum á barneignaraldri ókeypis gistingu í þeirri von að þau geti barn meðan á dvölinni stendur.

Fæðingartíðni á Ítalíu er afar lág og er framtak hótelsins liður í því að hífa upp fæðingartíðnina og laða að fleiri ferðamenn. Til þess að nýta sér tilboðið þurfa pörin að koma aftur á hótelið níu mánuðum eftir dvölina og sýna fram á fæðingarvottorð nýfædds barns. Þá endurgreiðir hótelið þeim gjaldið fyrir gistinóttina örlagaríku.

Bæjaryfirvöld í Assisi eru gagnrýnin á framtakið en þeim þykir það ekki samræmast orðstír bæjarins sem hefur ríka sögu- og menningarlega skírskotun. Þess auki er bærinn fæðingarstaður Frans páfa.

Yfirvöld á Ítalíu deila þó sömu áhyggjum og hóteleigendurnir í Assisi enda hefur fæðingartíðni á Ítalíu lækkað um helming frá árinu 1960. Fæðingartíðnin á Ítalíu hefur raunar ekki verið jafnlág frá árinu 1861.

Í fyrra ákváðu yfirvöld að bregðast við vandanum með auglýsingaherferð sem átti að hvetja ungt fólk til þess að fjölga sér. Auk þess var dagurinn 22. september gerður að „frjósemisdegi“ á Ítalíu.

Gefin voru út tólf veggspjöld vegna herferðarinnar og eitt þeirra sýndi til að mynda unga konu sem hélt á stundaglasi undir fyrirsögninni: „Fegurðin er óháð aldri en frjósemin er það ekki“.

Herferðin var harkalega gagnrýnd, meðal annars vegna þess að hún þótti móðgandi í garð þeirra sem eiga við frjósemisvandamál að stríða.

Auk þess var bent á það að rót vandans er líklegast sú að atvinnuleysi ungs fólks er gífurlegt á Ítalíu en það mældist 35 prósent á landsvísu í fyrra. Sérfræðingum þykir líklegt að ungir Ítalir kjósi að eignast ekki börn fyrr en þeir hafi tryggt sér örugga vinnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×