Lífið

Í bænum á gamlárs í fyrsta sinn í 12 ár

Guðný Hrönn skrifar
Þeir sem vilja verja áramótunum með Páli geta keypt miða á áramótaballið á midi.is.
Þeir sem vilja verja áramótunum með Páli geta keypt miða á áramótaballið á midi.is. Vísir/Anton Brink
Páll Óskar Hjálmtýsson verður með alvöru Pallaball á Spot í Kópavogi um áramótin en þetta er í fyrsta sinn í 12 ár sem Páll verður í bænum á gamlárskvöld. Hingað til hefur hann nefnilega haldið uppi stuðinu á Akureyri.

„Ég ætla að telja í Pallaball með öllu tilheyrandi á Spot í Kópavogi um áramótin. Ég er nú ekki vanur að spara glingrið og glamúrinn og það verður engin breyting þar á,“ segir Páll Óskar og hlær. Hann lofar alvöru balli þar sem öllu verður til tjaldað. Páll mun spila sína eigin tónlist í bland við gamalt diskó og klassíska partítónlist. „Já, ég blanda alltaf saman, minni eigin tónlist við aðra bæði nýja og gamla tónlist. Ég „performera“ þetta svo með dansi, búningaskiptum og látum.“

Eins og áður sagði hefur Páll varið seinustu 12 áramótum fyrir norðan. „Ég hef alltaf verið í Sjallanum á Akureyri og ég elska að spila þar. En málið er bara að nú er fjölskyldan mín farin að sakna mín og ég er farinn að sakna fjölskyldunnar. Mig langar bara að prófa að vera heima hjá mér á gamlárskvöld,“ segir Páll sem er yngstur af sjö systkinum. „Þetta er stór fjölskylda. Mig langar að borða með þeim áramótamatinn, taka Skaupið með þeim og skjóta nokkrum bombum.“

Kominn tími á að vera með fjölskyldunni

„Þetta hefur yfirleitt verið þannig að fjölskyldan hittist hjá elsta bróður mínum á meðan ég hef verið … ekki kannski einmana um áramótin, en ég meina, ég kaus að gera þetta svona,“ segir Páll sem finnur að nú er kominn tími til að verja áramótunum með sínum nánustu. „Þegar maður spilar og túrar svona mikið þá kallar það á að maður sé fjarri fjölskyldunni á einhverjum tímapunktum, og þú þarft stundum að hafa mikið fyrir því að hitta fjölskylduna og vinina. En ég get ekki sagt að ég sjái eftir neinu. Þessi vinna gefur mér svo mikið og á meðan mér líður eins og ég geti gefið af mér, þá er það svo sannarlega þess virði.“

Þó að Páll hafi viljað breyta til þessi áramótin þá kom ekki til greina að taka sér frí. „Nei, þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég geri í lífinu. Ég passa mig samt á að vera í fríi þegar tækifæri gefst. Ég vinn mjög mikið og það líður varla sú helgi að ég sé ekki að troða einhvers staðar upp. En í staðinn þá eru mánudagar og þriðjudagar eins og sunnudagar hjá mér,“ útskýrir Páll.

En er hann búinn að strengja áramótaheit? „Já, áður en árið 2017 er liðið þá langar mig að vera búinn að halda mína fyrstu stórtónleika í Laugardalshöll. Ég er að undirbúa það núna og líkurnar á að ég sé að fara að vera með stórtónleika á næsta ári eru mun meiri en minni. Það yrði þá með haustinu. Þetta krefst gríðarlega mikils undirbúnings, þetta verður eins og að setja söngleik um líf mitt á svið,“ segir hann bjartsýnn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×